Fótbolti

Orðið vel heitt undir Louis van Gaal hjá Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal.
Louis van Gaal. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Það er orðið vel heitt undir Hollendingnum Louis van Gaal sem þjálfar þýska stórliðið Bayern München. Bayern tapaði 3-1 á móti Hannover 96 í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en þetta var þriðja tap liðsins í röð.

Bayern er búið að tapa þremur leikjum á aðeins sjö dögum því liðið datt út fyrir Schalke 04 í þýska bikarnum í vikunni og hafði tapað 1-3 fyrir toppliði Borussia Dortmund um síðustu helgi.

Mohammed Abdellaoue og Konstantin Rausch komu Hannover 96 í 2-0 en Arjen Robben minnkaði muninn á 55. mínútu. Sergio Pinto skoraði síðan þriðja mark Hannover-liðsins sjö mínútum síðar og Bayern missti síðan Breno útaf með rautt spjald á 73. mínútu.

„Mínir menn voru undir mikilli pressu fyrir þennan leik og eftir að við lentum undir var pressan síðan enn meiri. Ég ræð ekki framtíð minni hér og get aðeins haldið áfram mínu starfi. Þetta er vissulega orðið tæpt eftir þriðja tapið í röð," sagði Louis van Gaal.



Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Bayern München varð helst að vinna leikinn til að eiga einhverja möguleika á öðru sætinu sem gefur beint sæti inn í aðalkeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili.

Bayern er nú í 4.sæti, sjö stigum á eftir Bayer Leverkusen sem er í 2. sæti og fimm stigum á eftir Hannover-liðinu sem er í 3.sætinu. Forráðamenn félagsins höfðu gefið það út að Bayern yrði að ná öðru sætinu ætlaði Van Gaal að halda starfinu.

Bayern á nú aðeins möguleika á að vinna einn titil á tímabilinu og það er í Meistaradeildinni þar sem Bayern er í ágætum málum eftir 1-0 sigur á Internazionale í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×