Nokkrar tilvitnanir Davíð Þór Jónsson skrifar 5. mars 2011 05:45 Í dag nenni ég ekki að skrifa Bakþanka. Þess í stað ætla ég að deila með ykkur sex völdum tilvitnunum af þeim toga sem ég hef mest gaman af. Þær eru þessar, í aldursröð: 1. „Ég hef enga von um framtíð þjóðar okkar ef hún er í höndum hinnar léttúðarfullu æsku nútímans, því sannarlega er allt ungt fólk ábyrgðarlausara en orð fá lýst. Þegar ég var ungur var okkur kennt að vera háttprúð og sýna okkur eldra fólki virðingu, en nú er æskufólk þrætugjarnt og hamslaust." Þetta mælti gríski heimspekingurinn Hesíódos á 8. öld f. Kr. 2. „Ungt fólk nú á dögum kann ekki mannasiði, það ber enga virðingu fyrir yfirvaldi eða sér eldra fólki. Það þrætir við foreldra sína, blaðrar framan í ókunnuga, ryður í sig góðgæti og sýnir kennurum sínum harðræði." Þetta er haft eftir Sókratesi (469 – 399 f. Kr.) 3. „Síðasta helgi mun lengi í minnum höfð sökum frámunalegrar framkomu mikils fjölda æskufólks á samkomum suðvestanlands. Þar sem skemmtanir voru haldnar var ölvun víðast óstjórnleg og skrílmennska sums staðar slík að annars mun vart dæmi fyrr hér á landi." Þessi orð voru rituð árið 1952. Æskufólkið sem þarna er lýst er nú á áttræðisaldri. 4. „Var ærið starfa að reyna að koma í veg fyrir stórskemmdir á fólki og umhverfi og taka úr umferð ölóða menn sem óðu um og efndu til illinda og óeirða. [...] full þörf hefði verið á því að fjarlægja þá af samkomusvæðinu og er það hin mesta mildi að þeir skyldu ekki verða sjálfum sér eða öðrum að stórvoða eða fjörtjóni." Hér er verið að lýsa æskulýðsskemmtun árið 1961, þegar foreldrar mínir voru 16 og 17 ára. 5. „Í nístandi nepjuni óðu svínfullir unglingar, ekki komnir af barnsaldri, fram og aftur, veifandi brennivínsflöskum af öllum gerðum, organdi og hvíandi, þuklandi og klípandi hitt kynið og fleygjandi flöskum í allar áttir, jafnóðum og þær tæmdust." Svona lýsti Tíminn hátíðahöldunum í Reykjavík 17. júní 1972. Þessir „svínfullu unglingar" eru í dag á fimmtugs- og sextugsaldri. 6. „Heimsendir er í nánd, teiknin blasa alls staðar við, ofbeldisleikir, netklám, steratröll og egófíkn á Facebook." Þetta ritaði Andri Snær Magnason (f. 1973) árið 2011. Mér finnst gott til þess að vita að ungt fólk skuli enn vera eins óalandi og óferjandi og það hefur verið frá upphafi tíma. Annars væri að mínu mati rík ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun
Í dag nenni ég ekki að skrifa Bakþanka. Þess í stað ætla ég að deila með ykkur sex völdum tilvitnunum af þeim toga sem ég hef mest gaman af. Þær eru þessar, í aldursröð: 1. „Ég hef enga von um framtíð þjóðar okkar ef hún er í höndum hinnar léttúðarfullu æsku nútímans, því sannarlega er allt ungt fólk ábyrgðarlausara en orð fá lýst. Þegar ég var ungur var okkur kennt að vera háttprúð og sýna okkur eldra fólki virðingu, en nú er æskufólk þrætugjarnt og hamslaust." Þetta mælti gríski heimspekingurinn Hesíódos á 8. öld f. Kr. 2. „Ungt fólk nú á dögum kann ekki mannasiði, það ber enga virðingu fyrir yfirvaldi eða sér eldra fólki. Það þrætir við foreldra sína, blaðrar framan í ókunnuga, ryður í sig góðgæti og sýnir kennurum sínum harðræði." Þetta er haft eftir Sókratesi (469 – 399 f. Kr.) 3. „Síðasta helgi mun lengi í minnum höfð sökum frámunalegrar framkomu mikils fjölda æskufólks á samkomum suðvestanlands. Þar sem skemmtanir voru haldnar var ölvun víðast óstjórnleg og skrílmennska sums staðar slík að annars mun vart dæmi fyrr hér á landi." Þessi orð voru rituð árið 1952. Æskufólkið sem þarna er lýst er nú á áttræðisaldri. 4. „Var ærið starfa að reyna að koma í veg fyrir stórskemmdir á fólki og umhverfi og taka úr umferð ölóða menn sem óðu um og efndu til illinda og óeirða. [...] full þörf hefði verið á því að fjarlægja þá af samkomusvæðinu og er það hin mesta mildi að þeir skyldu ekki verða sjálfum sér eða öðrum að stórvoða eða fjörtjóni." Hér er verið að lýsa æskulýðsskemmtun árið 1961, þegar foreldrar mínir voru 16 og 17 ára. 5. „Í nístandi nepjuni óðu svínfullir unglingar, ekki komnir af barnsaldri, fram og aftur, veifandi brennivínsflöskum af öllum gerðum, organdi og hvíandi, þuklandi og klípandi hitt kynið og fleygjandi flöskum í allar áttir, jafnóðum og þær tæmdust." Svona lýsti Tíminn hátíðahöldunum í Reykjavík 17. júní 1972. Þessir „svínfullu unglingar" eru í dag á fimmtugs- og sextugsaldri. 6. „Heimsendir er í nánd, teiknin blasa alls staðar við, ofbeldisleikir, netklám, steratröll og egófíkn á Facebook." Þetta ritaði Andri Snær Magnason (f. 1973) árið 2011. Mér finnst gott til þess að vita að ungt fólk skuli enn vera eins óalandi og óferjandi og það hefur verið frá upphafi tíma. Annars væri að mínu mati rík ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.