„Ég held að enginn geri sér grein fyrir því hvernig það er að lenda í þessu, þetta er rosaleg upplifun," segir Guðmundur Vignir Steinsson, sem rekur N1 og Systrakaffi á Kirkjubæjarklaustri. Kolniðamyrkur er nú á Kirkjubæjarklaustri en mikil aska hefur fallið til jarðar eftir að eldgosið hófst í Grímsvötnum á laugardagskvöld.
„Það hefur verið kolniðamyrkur frá því í gær, það birti reyndar til um klukkan fjögur síðdegis í gær en það hefur eiginlega bara verið myrkur frá því í gærkvöldi. Núna sé ég rétt út á bensíndæluna sem er bara nokkrum metrum frá húsinu," segir Guðmundur Vignir.
Hann segir að mikið ryk og mikil drulla sé inni í veitingaskálnum. „Það var allt skúrað og þrifið hérna klukkan átta í morgun en það er allt orðið eins aftur, ef þú leggur puttann á hillu eða borð þá kemur far, þetta er algjör viðbjóður."
Hann segir að það hafi verið furðuleg upplifun að vakna í morgun og ekki sjá nema nokkra metra fram fyrir sig. „Það lá við að maður sagði bara góða kvöldið við viðskiptavinina í morgun," segir hann og hlær. „Þetta er eins og að upplifa desembermánuð í endann maí, ótrúlega furðuleg tilfinning."
Hann segir að það hafi ekki komið margir viðskiptavinir í búðina hjá sér síðan gosið hófst. „Það er náttúrlega mikið af björgunarsveitarliði sem kemur og við reynum að búa til samlokur og súpur handa þeim," segir hann að lokum.
