Viðskipti erlent

Markaðurinn telur 71% líkur á grísku þjóðargjaldþroti

Matsfyrirtækið Moody´s hefur sökkt lánshæfi gríska ríkisins enn dýpra niður í ruslflokk. Moody´s lækkaði lánshæfið um 3 stig niður í Caa1 sem er aðeins fimm stigum frá gjaldþrotseinkunn. Markaðurinn telur 71% líkur á grísku þjóðargjaldþroti en skuldatryggingaálag Grikklands nálgast nú 1.500 punkta.

Ákvörðun Moody´s um að lækka lánshæfiseinkunn Grikklands enn frekar kemur mitt inn í viðkvæmar samningaviðræður milli grískra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og ESB um fimmtu útborgunina á neyðarlánunum sem ákveðið var að veita Grikklandi.  AGS vill ekki borga nema Grikkir geti sýnt fram á að þeir komist hjá gjaldþroti á næstu 12 mánuðum.

Samkvæmt frétt á Bloomberg fréttaveitunni flækir það svo stöðuna að Grikkir eru að semja við AGS og ESB um nýtt neyðarlán upp á nær 13.000 milljarða kr.

George Papandreou forsætisráðherra Grikklands hefur lofað því að skera fjárlög ríkisins niður um rúma 900 milljarða kr. í ár og 3.500 milljarða kr. fram til ársins 2015. Á sama tíma á sala á ríkiseignum í landinu að gefa yfir 8.000 milljarða í kassann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×