Fótbolti

Finnur: Sterkt að halda hreinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. mynd/HAG
Finnur Ólafsson, leikmaður ÍBV, segir að það hafi verið fyrir öllu ná sigri gegn St. Patrick's í forkeppni Evrópudeildar UEFA í dag og að það hafi ekki skemmt fyrir að ÍBV hélt einnig hreinu.

„Það var mjög sterkt að ná að landa þessum sigri," sagði Finnur. „Þeir náðu nokkrum háum boltum inn á teig í seinni hálfleik en okkur tókst ágætleg að eiga við það. Tony bjargaði reyndar á línu einu sinni en annars fannst mér ekki stafa mikil hætta af þeim."

Fyrri hálfleikur var ekkert sérstakur og sagði Finnur að leikmenn hafi rætt um það í hálfleik að það hefði kannski verið smá stress í þeim. „Bæði stress og tilhlökkun. En um leið og við fórum að spila boltanum niðri þá kom þetta hjá okkur. Við hefðum mátt gera meira af því í leiknum því við fórum full snemma í háu sendingarnar."

ÍBV breytti í 4-4-2 í seinni hálfleik og segir Finnur að þá hafi liðið bakkað full mikið í varnarleiknum. „Ég veit ekki hvort að það var það sem Heimir (Hallgrímsson, þjálfari ÍBV) vildi en við áttum að vera djúpir á miðjunni. Það sem stendur eftir er að við unnum og náðum að halda hreinu sem verður að teljast mjög sterkt."

„En það er líka ljóst að við þurfum að spila betur í seinni leiknum til að komast áfram. Þá getum við ekki leyft okkur að detta svona langt til baka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×