Tónlist

Orðrómur um að Bítlar komi saman

Paul McCartney  og Ringo Starr í stuði. Sú saga gengur nú fjöllum hærra þeir ætli að koma fram á næsta ári ásamt sonum George Harrison og John Lennon.
Paul McCartney og Ringo Starr í stuði. Sú saga gengur nú fjöllum hærra þeir ætli að koma fram á næsta ári ásamt sonum George Harrison og John Lennon. Mynd/Getty Images
Líkur eru á að eftirlifandi meðlimir Bítlanna komi fram á opnunarhátíð Ólympíuleikanna sem fram fara í London á næsta ári. Paul McCartney hvorki neitar né staðfestir orðróm þess efnis.

Sumarólympíuleikarnir 2012 verða haldnir í London dagana 27. júlí til 12. ágúst. Opnunarhátíðir leikanna verða sífellt glæsilegri og ætla Bretar að tjalda öllu til. Sú saga gengur nú fjöllum hærra að Paul McCartney og Ringo Starr muni troða upp á hátíðinni ásamt Dhani, syni George Harrison, og Julian og Sean, sonum John Lennon.

Samkvæmt erlendum fréttamiðlum segist McCartney hafa heyrt orðróminn en hann er ófáanlegur til að gefa upp hvort af þessu verði. Þess í stað hefur McCartney varist fimlega spurningum fréttamanna og slegið á létta strengi. „Ég þekki mann sem þekkir manninn sem ætlar að spyrjast fyrir um þetta fljótlega," sagði McCartney af þessu tilefni.

Bítlarnir eru ein þekktasta og vinsælasta hljómsveit fyrr og síðar, en hún var stofnuð árið 1960. Síðasta plata hljómsveitarinnar kom út árið 1970. Tíu árum síðar var Lennon myrtur fyrir utan heimili hans í New York. Harrison lést úr krabbameini árið 2001.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×