Íslenski boltinn

Ólsarar ósáttir með þriggja leikja bann þjálfara síns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/vikingurol.bloggar.is
Stjórn knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu varðandi þriggja leikja bannið sem þjálfari félagsins, Ejub Purisevic, hlaut nýverið.

Ejub Purisevic var dæmdur í þriggja leikja bann eftir leik Víkings Ólafsvíkur og Fjölnis þann 22. júlí. Ejub hlaut rautt spjald í leiknum en athugasemdir í skýrslu dómara leiksins urðu til þess að hefðbundið eins leiks bann var lengt í þrjá leiki.

Víkingar eru ósáttir við að Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hafi ekki rannsakað málið nægilega vel áður en hún tók ákvörðun sína.

Yfirlýsingin

Stjórn knd.Víkings Ó er mjög ósátt við að þjálfari félagsins, Ejub Purisevic, skuli hafa verið dæmdur í 3ja leikja bann á aganefndarfundi þann 27.júlí 2011 útfrá skýrslu dómara eftir leik Víkings Ó og Fjölnis þann 22. júlí sl. og það bann staðfest af áfrýjunardómstól KSÍ þann 3. ágúst 2011. Ekki var t.t.t. neinna athugasemda sem knd. Víkings Ó gerði við skýrslu dómara en deildin telur að málsatvik hafi með öðrum hætti en þar kemur fram.

Viðbótarrökstuðningur var sendur til áfrýjunardómstóls KSÍ en dómstóllinn vék ekki frá þeirri meginreglu sinni að leyfa ný gögn þó dómstólnum hefði verið það heimilt. Við það er í sjálfu sér ekkert að athuga.

Í þessum nýju gögnum voru yfirlýsingar frá öryggisstjóra vallarins , gæslumanns á vellinum og starfsmanns á varamannabekk félagsins. Þessi gögn voru í ósamræmi við lýsingar dómara á umræddum atvikum og harmar Víkingur að málið skuli ekki hafa verið rannsakað af aganefnd áður en hún tók ákvörðun sína og hún hafði ástæðu til að gera í ljósi fram kominna athugasemda. Vinnubrögð sem þessi eru algerlega í ósamræmi við allar meginreglur um að mál skulu rannsaka áður en ákvörðun er tekin og felur í sér að dómarar geta upp á sitt einsdæmi, vilji þeir það, látið dæma heilt knattspyrnulið í leikbann án þess að fyrir því séu nokkur rök.

Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar Víkings Ó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×