Golf

Frábær hringur hja Ólafi Birni - á tveimur undir pari

Kolbeinn Tumi Daðasno skrifar
Ólafur Björn var í banastuði í Greensboro í dag.
Ólafur Björn var í banastuði í Greensboro í dag. Mynd/Golfsamband Íslands
Ólafur Björn Loftsson fór á kostum á fyrsta degi Wyndham PGA-mótsins í dag. Ólafur fór hringinn á Sedgefield-vellinum á tveimur höggum undir pari.

Ólafur Björn hóf leik á 10. holu rétt fyrir klukkan eitt í dag. Ólafur spilaði 10. holuna á skramba eða tveimur höggum yfir pari. Óhætt er að segja að fall hafi verið fararheill því Ólafur fór á kostum það sem eftir lifði dags.

Að loknum fyrri níu var Ólafur Björn á einu höggi undir pari. Auk skrambans fékk hann þrjá fugla og fimm pör. Leikur Ólafs var ekki síðri á seinni níu holunum þar sem hann fékk átta pör og einn fugl.

Ólafur Björn deilir sem stendur 21. sæti með 19 öðrum keppendum en 156 keppendur taka þátt í mótinu. Ekki hafa allir kylfingar lokið leik en John Daly og Padraig Harrington eru meðal manna sem áttu ekkert í Ólaf Björn í dag.

Ólafur var í ráshóp með Billy Horschel frá Bandaríkjunum og Cameron Percy frá Ástralíu. Óhætt er að segja að ráshópurinn hafi verið sjóðandi heitur. Horschel spilaði á þremur höggum undir og Percy á tveimur undir líkt og Ólafur.

Um sjötíu kylfingar komast í gegnum niðurskurðinn að loknum hring morgundagsins. Ólafur Björn á góðan möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn spili hann sambærilegt golf og í dag.

Enn á meirhluti keppenda eftir að ljúka leik og fróðlegt verður að sjá í hvaða sæti Ólafur Björn verður að deginum loknum. Fylgjast má með gangi mála hér.


Tengdar fréttir

Ólafur Björn á tveimur undir eftir sextán holur

Ólafur Björn Loftsson, kylfingur úr Nesklúbbnum, stendur sig vel á PGA-mótinu á Sedgefield-vellinum í Norður-Karólínu. Hann hefur nú lokið sextán holum á fyrsta hring og er á tveimur höggum undir pari.

Ólafur með þrjá fugla á fyrstu sjö holunum

Ólafur Björn Loftsson, kylfingur úr Nesklúbbnum, virðist kominn í stuð á Wyndham PGA-mótinu. Ólafur Björn fékk skramba á fyrstu holu en hefur síðan þá fengið þrjá fugla og parað þrjár holur.

Ólafur Björn má ekki taka við verðlaunafénu

Áhugamaður hefur ekki sigrað á PGA-mótaröðinni í tvo áratugi. Phil Mickelson var sá síðasti sem afrekaði það, árið 1991. Ólafur Björn Loftsson getur ekki tekið við hundrað milljónum ef hann sigrar á PGA-mótinu í Norður-Karólínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×