Enski boltinn

Fundað um fram­tíð Guardiola í vikunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guardiola á mikilvægan fund í vikunni samkvæmt spænskum fjölmiðlum.
Guardiola á mikilvægan fund í vikunni samkvæmt spænskum fjölmiðlum. Matt McNulty/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, mun funda um framtíð sína í starfi í vikunni. Samningur Spánverjans rennur út í lok tímabils.

Greint er frá í spænskum fjölmiðlum. Guardiola hefur verið orðaður við landsliðsþjálfarastarf Brasilíu en óljóst þykir hvort hann haldi kyrru fyrir í Manchester.

Relevo greinir frá því að Guardiola muni funda með forráðamönnum Manchester City í vikunni um möguleikann á eins árs framlengingu á samningi hans. Félagið er sagt vilja halda Guardiola sem hefur stýrt City til sex Englandsmeistaratitla á átta árum í starfi.

Það sé félaginu mikilvægt að halda í Guardiola þegar nýr yfirmaður knattspyrnumála, Portúgalinn Hugo Viana, tekur við af Txiki Begiristain, næsta sumar. Begiristain hefur sinnt starfinu í tólf ár.

Gengi City-liðsins hefur verið slakt síðustu vikur, á mælikvarða Guardiola sem hefur náð sögulega góðum árangri í starfi. Liðið tapaði fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni um helgina en í fyrsta skipti í stjóratíð Guardiola hefur City tapað fjórum leikjum í röð. Jafnframt er það í fyrsta skipti á þjálfaraferli Guardiola sem hann þarf að þola fjögur töp í röð.

City tapaði fyrir Tottenham í deildabikarnum, fyrir Bournemouth í deildinni og Sporting í Meistaradeild Evrópu áður en kom að fjórða tapinu í röð um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×