Fótbolti

Lahm ráðleggur samkynhneigðum knattspyrnumönnum að halda sig í skápnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Philipp Lahm hýr á brá ásamt Manuel Neuer og Arjen Robben.
Philipp Lahm hýr á brá ásamt Manuel Neuer og Arjen Robben. Nordic Photos / Getty Images
Philipp Lahm, fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu, ráðleggur samkynhneigðum atvinnumönnum í knattspyrnu að halda sig í skápnum. Afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar að sögn bakvarðarins.

„Ég hef áhyggjur af því að það gæti farið illa fyrir viðkomandi líkt og tilfellið varð með Justin Fashanu. Eftir að hann kom út úr skápnum var umfjöllun um hann svo gagnrýnin að hann endaði á því að fremja sjálfsmorð," segir Lahm í nýútkominni ævisögu sinni.

Justin Fashanu þótti einn efnilegasti knattspyrnumaður Bretlandseyja á sínum tíma. Hann spilaði meðal annars með Norwich og Nottingham Forest. Ferill hans tók ranga stefnu eftir að hann kom út úr skápnum og hann tók líf sitt árið 1998, aðeins 37 ára gamall.

Fashanu er til dagsins í dag eini þekkti atvinnumaðurinn í knattspyrnu sem hefur opinberað samkynhneigð sína.

Lahm, sem leikur með Bayern München, segist sjálfur ekki hafa neitt á móti samkynhneigðum.

„Ég hef ekkert á móti samkynhneigðum og tel ekkert afbrigðilegt við samkynhneigð," segir Lahm

Ævisaga Lahm hefur hlotið mikla athygli og gagnrýni í Þýskalandi. Þar gagnrýnir hann meðal annars leikmenn og þjálfara. Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, hefur boðað Lahm á sinn fund vegna útkomu bókarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×