Íslenski boltinn

Aron: Skutum of mikið í hausinn á miðvörðunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Jóhannsson var í fremstu víglínu í 2-0 tapinu gegn Noregi á Kópavogsvelli í dag. Hann mátti sín lítils og þurfti oft að sækja boltann langt tilbaka á eigin vallarhelming.

„Mér fannst ég ekki komast inn í leikinn, ég fékk aldrei boltann. Mér fannst ég þurfa að detta neðar til að taka þátt í spilinu svo við gætum haldið boltanum en þá vantaði framherja til að pota inn marki," sagði Aron.

Miðverðir norska liðsins virkuðu afar öruggir og eftir að Norðmenn komust marki yfir í fyrri hálfleik virkuðu íslensku strákarnir aldrei líklegir til þess að jafna metin.

„Já, þeir voru báðir yfir 1.90 metrar á hæð og mér fannst við setja boltann á hausinn á þeim. Í fyrri hálfleik vorum við að spila boltanum vel niðri, halda honum niðri og koma okkkur í gegn þannig. En eftir að við fáum á okkur markið grípur um sig svolítil örvænting og við förum að skjóta boltanum í hausinn á þeim," sagði Aron.

Sumir leikmenn íslenska liðsins virkuðu þreyttir í síðari hálfleiknum. Undirritaður kraup í viðtalinu við Aron þar sem hann sat, meiddur á fæti.

„Ég veit það ekki, virkuðum við þreyttir? Það er nú bara eitthvað sem var að fyrir leik. Ekkert sem gerðist í leiknum," sagði Aron um meiðsli sín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×