Íslenski boltinn

Björn Bergmann tryggði Íslandi sigur gegn Belgum - skoraði bæði mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Mynd/Vilhelm
Björn Bergmann Sigurðarson skoraði sigurmark íslenska 21 árs landsliðsins á móti Belgíu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2013 sem fram fór á Vodafonevellinum að Hlíðarenda í kvöld. Björn Bergmann skoraði sigurmarkið sitt þremur mínútum fyrir leikslok og tryggði Íslandi með því 2-1 sigur.

Björn Bergmann hafði komið Íslandi í 1-0 á 25. mínútu eftir sendingu frá Birni Daníel Sverrissyni en Belgar jöfnuðu leikinn rétt fyrir hlé.

Belgar byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel en Björn Bergmann og Aron Jóhannsson fengu báðir fín færi áður en kom að marki Björns í lokin.

Kristinn Steindórsson gerði þá vel, stakk boltanum inn á Björn Bergmann sem skoraði laglega og sá til þess að íslenska liðið byrjaði nýja undankeppni á sigri.

Tómas Ingi Tómassyni stýrði íslenska liðinu í kvöld þar sem þjálfari liðsins, Eyjólfur Sverrisson, tók út leikbann. Næsti leikur Íslands er á móti Noregi í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×