Íslenski boltinn

Sara Björk: Þurftum að vinna þennan leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sara Björk í baráttunni í dag.
Sara Björk í baráttunni í dag. Mynd/Daníel
Sara Björk Gunnarsdóttir átti frábæran dag eins og svo margir aðrir í íslenska landsliðinu sem vann 3-1 sigur á Noregi í dag.

Ísland skoraði mörkin sín þrjú í fyrri hálfleik en átti svo á brattann að sækja í þeim síðari. Norðmenn skoruðu þó aðeins eitt mark og því sætur sigur Íslands staðreynd.

„Tilfinningin er auðvitað mjög góð. Það er gaman að vinna og gaman að fá þrjú stig. Þetta var líka leikur sem við þurftum að vinna enda stærsti leikurinn í riðlinum,“ sagði Sara Björk.

„Mér fannst mikilvægt að við skoruðum þessi þrjú mörk í byrjun því við slökuðum á í seinni hálfleik og þær komu sterkar inn. En mér fannst við verjast vel enda héldum við þetta út og unnum leikinn.“

Norska liðið minnkaði muninn þegar um 20 mínútur voru til leiksloka og segir Sara að þá hafi verið smá óðagot á leik íslenska liðsins.

„Við töluðum um að róa okkar leik aðeins og fannst mér það ganga á köflum ágætlega. Við hefðum kannski átt að halda boltanum betur og vera aðeins rólegri þegar við vorum með hann en þetta gekk upp.“

„En mér fannst allir gefa sig 100 prósent í leikinn og það er það sem þarf til að vinna svona öflugt lið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×