Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Leggjum allt í sölurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska landsliðsins, segir liðið ætla að leggja allt í sölurnar til að vinna sigur á Belgum í undankeppni EM 2013 í kvöld.

Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst klukkan 19.30. Þetta er þriðji leikur Íslands í riðlinum en Ísland vann hina tvo, nú síðast um helgina gegn sterkum Norðmönnum.

„Við erum búnir að fá leikgreiningu á belgíska liðinu og séð leiki liðsins á DVD,“ sagði Sigurður Ragnar en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„En við ætlum samt að einbeita okkur mest að okkar leik og hvað við gerum vel. Við spiluðum gríðarlega vel í síðasta leik og við ætlum að halda því áfram.“

„Við þurfum að vinna þennan leik ef við ætlum okkur að vinna riðilinn eins og markmiðið er. Við leggjum því allt í sölurnar til að fá sigur.“

Hann segir að belgíska liðið sé með fljóta framherja sem beri að varast. „Þær sækja hratt fram með löngum sendingum en spila líka þéttan varnarleik. Þær eru líka vel skipulagðar, duglegar og líkamlega sterkar. Við þurfum því að vita af þeirra styrkleikum en mestu máli skiptir er að við náum að nýta okkar styrkleika í leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×