Íslenski boltinn

Jörundur Áki tekur við starfi Guðjóns Þórðarsonar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson, fyrrum aðstoðarþjálfari Heimis Guðjónssonar hjá FH, hefur verið ráðinn þjálfari BÍ/Bolungarvíkur en Jörundur Áki gerði þriggja ára samning við Djúpmenn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá frá BÍ/Bolungarvík.

Jörundur Áki hefur störf um næstu mánaðarmót en hann tekur við starfi Guðjóns Þórðarsonar sem var rekinn frá félaginu á dögunum. BÍ/Bolungarvík endaði í sjötta sæti í 1. deildinni í sumar og komst alla leið í undanúrslit bikarsins.

Jörundur Áki á að baki langan þjálfaraferil en hefur náð lengst í kvennaboltanum þar sem að hann gerði Breiðablik tvisvar að Íslandsmeisturum og stjórnaði einnig íslenska kvennalandsliðinu.

Jörundur Áki var síðast aðalþjálfari í meistaraflokki karla þegar hann stýrði Stjörnunni 2005 til 2006. Fyrra árið fór hann með Stjörnuliðið upp úr 2. deildinni og seinna sumarið endaði liðið í 5. sæti í 1. deildinni.

Tveir bestu leikmenn Íslandsmótsins í ár (að mati Fréttablaðsins), Daníel Laxdal og Hannes Þór Halldórsson, spiluðu báðir undir hans stjórn þetta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×