Viðskipti erlent

Upplausn í ríkisstjórn Grikklands, neyðarfundur í hádeginu

Ríkisstjórn Grikklands er í upplausn eftir að nokkrir ráðherrar innan hennar hafa lýst sig mótfallna ákvörðun George Papandreou forsætisráðherra landsins að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samkomulagið við Evrópusambandið um skuldavanda landsins.

Fjármálaráðherrann gaf það út í gær að hann myndi ekki styðja ákvörðun Papandreou. Í dag hafa tveir aðrir ráðherrar, þar á meðal landbúnaðarráðherrann lýst sömu skoðun.

Þá hefur mennta- og kirkjumálaráðherra landsins sagt að hún muni gera allt í sínu valdi til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Gríska stjórnin hefur verið boðuð til neyðarfundar í hádeginu í dag og spurningin er hvort Papandreou verði enn forsætisráðherra í lok dagsins.

Þá hafa nokkrir stjórnarþingmenn lýst yfir andstöðu sinni við ákvörðun Papandreou og segjast ekki munu styðja hann í vantrausttillögu gegn stjórninni sem verður lögð fram á gríska þinginu á morgun, föstudag. Papandreou hefur því misst meirihluta sinn á þinginu og sennilegt að vantraust á stjórn hans verði samþykkt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×