„Mér finnst fólk farið að leika sér meira með blómin en áður og blanda ýmsu saman," segir Rannveig Vernharðsdóttir, eigandi Mimosu á Glerártorgi á Akureyri, spurð um nýjungar í fermingarblómum. Hún segir rósir jafnan vinsælar og nú séu túlípanar til í mörgum nýjum og skemmtilegum litum. Kertin eru fjölbreytileg sem keypt eru fyrir fermingar og þau eru skreytt í Mimosu fyrir þá sem það kjósa.
Blómastúdíó Hrönn er ný verslun í Nóatúni 17. Þar ræður húsum Guðrún Hrönn Einarsdóttir blómaskreytir. „Ég legg áherslu á einfaldleikann og nota ýmislegt með blómunum," segir hún um fermingarskreytingarnar, sem hún teygir sumar hverjar út á borðið með hjálp vírs og oasis-kúlna. Hún er líka með ódýra og litríka vasa sem er hægt að sveigja og setja flottan svip á borð.
„Mér þykir gaman að stilla þannig upp að ég miðli hugmyndum til fólks," segir Guðrún Hrönn og tekur fram að fólk geti komið með eigin kerti og hún skreytt í kringum þau. - gun



Mynd/Heida.is

