Lífið

Rokkkvöldverður á Akureyri

Íslenskir tónlistarmenn heiðra Alice in Chains með tónleikum í kvöld og annað kvöld. mynd/joe ritter
Íslenskir tónlistarmenn heiðra Alice in Chains með tónleikum í kvöld og annað kvöld. mynd/joe ritter
Tvennir tónleikar til heiðurs bandarísku gruggsveitinni Alice in Chains verða haldnir í kvöld og annað kvöld. Fyrst á Sódómu Reykjavík og síðan á Græna hattinum á Akureyri. Síðustu heiðurstónleikar voru á rokkhátíðinni Eistnaflugi.

„Eistnaflugið gekk framar vonum. Það var troðfullur salur og allir sungu með þrátt fyrir að þetta væri vígi þyngsta metalsins,“ segir skipuleggjandinn Franz Gunnarsson. „Vegna þess að þetta var pantað sérstaklega fyrir Eistnaflug ákváðum við að taka eina tónleika í Reykjavík og eina á Akureyri áður en Jenni [Jens Ólafsson úr Brain Police] fer aftur í nám til Danmerkur eftir helgi.“

Á Akureyri getur fólk pantað sérstakan rokkkvöldverð í Laxdalshúsi fyrir tónleikana þar sem hitað verður upp með bandinu. „Mér skilst að það verði brennivínsleginn lundi og nautarass og eitthvað dóterí sem verður framreitt með fullt af viskíi. Hugmyndin er að við snæðum með hópnum og á milli rétta stígum við á stokk og spilum fyrir gestina í beinni útsendingu hjá Plús 987,“ segir Franz.

Miðaverð á fjórréttaðan rokkkvöldverð með áfengi, skutli á tónleikana og á tónleikana sjálfa í fráteknum sætum er 15.900 krónur. „Þetta lítur mjög vel út og gæti orðið dúndur kvöldstund,“ segir Franz spenntur. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×