Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Lars væri góður í að byggja upp nýja liðsmenningu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Ragnar segir Lagerbäck vera afar góðan kost fyrir íslenska landsliðið.
Sigurður Ragnar segir Lagerbäck vera afar góðan kost fyrir íslenska landsliðið. Fréttablaðið/Stefán
„Lars hefur komið nokkrum sinnum til okkar. Hann situr í nefnd UEFA um þjálfaragráður og hefur komið hingað til að veita okkur gæðastimpil. Hann hefur líka haldið fyrirlestra hér og verið með þjálfaramenntun. Það hefur ávallt verið gerður góður rómur að hans málflutningi enda fær maður og virtur í þjálfaraheiminum,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ og þjálfari kvennalandsliðsins, um Svíann Lars Lagerbäck sem er orðaður við þjálfarastöðuna hjá A-landsliðinu.

Sigurður hefur kynnst Lagerbäck ágætlega og þekkir vel til hans sem þjálfara.

„Lars er duglegur að taka þátt í þjálfaramenntun víða í Evrópu. Hann hefur mikinn áhuga á að viðhalda þekkingu. Þó svo hann sé orðinn 63 ára er hann nútímalegur þjálfari. Hann hefur kynnt hugmyndafræðina á bak við sænska landsliðið á sínum tíma en slíkir hlutir eru oft mikið leyndarmál. Það er ekki hjá honum enda opinn og til í að deila þekkingu með öðrum.“

Fræðslustjórinn ber Lagerbäck góða söguna og segir að þjálfarinn hafi lengi haft augastað á því að þjálfa á Íslandi.

„Í þau skipti sem hann hefur komið hingað höfum við stundum gantast með það hvort hann gæti hugsað sér að þjálfa hér og hann hefur alltaf tekið vel í það,“ segir Sigurður, sem er ekki í vafa um að Lagerbäck yrði góður kostur fyrir íslenskan fótbolta.

„Hann er mjög álitlegur kostur enda með mikla reynslu. Hann er líka sterkur karakter sem hefur til að mynda tekið fast á öllum agabrotum. Ég held að hann væri góður í að byggja upp nýja liðsmenningu hjá A-liðinu og móta hugmyndafræði í kringum liðið. Þar er hann sterkur. Það yrði hvalreki að fá slíkan mann hingað,“ segir Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×