Kennileiti hagsýna fólksins Gerður Kristný skrifar 24. október 2011 06:00 Reglulega berst sá kvittur um landið að sænska verslanakeðjan Hennes og Mauritz hyggist opna útibú á Íslandi. Þráin eftir þessari verslun er býsna sterk því enn hefur ekki reynst flugufótur fyrir sögunni. Íslendingar eiga sér þó þann draum að geta keypt sér ódýr og sæmilega smekkleg föt þótt ekki væri nema á börnin sín, en barnafatadeild Hennes og Mauritz hefur reynst þjóðinni sérstaklega vel. Þegar dró úr utanlandsferðum Íslendinga eftir hrun voru nokkrir landar okkar erlendis snöggir að sjá sér leik á borði og tóku að bjóða upp á innkaup í Hennes og Mauritz gegn greiðslu. Tollurinn var reyndar álíka fljótur að átta sig á þessum nýja verslunarmáta og krafðist þess að kaupendur greiddu tilskilin gjöld af góssinu. Við það dró eitthvað úr ávinningnum. Mörgum finnst samt ómissandi að komast að minnsta kosti einu sinni á ári í Hennes og Mauritz. Eitt sinn heyrði ég af hjónum sem vörðu heilum degi af fremur stuttri Mílanóferð til að aka á bílaleigubíl út í eitthvert úthverfið til að komast í þessa búð. Síðasta máltíð Krists eftir Leonardo da Vinci hafði ekki sama aðdráttaraflið og fataslárnar, nema hjónin hafi bara langað til að vera í nýju dressi þegar þau loksins hittu þá félagana. Fyrir nokkru hlustaði ég líka á tal vinkvenna sem höfðu farið saman til Rotterdam þar sem er að finna stórkostlega höfn, góð söfn og magnaðan arkitektúr. Ein úr hópnum kom staðnum ekki alveg fyrir sig í fyrstu en var snögg að átta sig: „Var það þar sem við fórum í Hennes og Mauritz?" spurði hún. Jú, jú, hún hafði rétt fyrir sér og minningarnar streymdu óðara fram. Hennes og Mauritz-búðirnar varða leið hagsýna fólksins um Evrópu. Svo má líka leita þangað þegar hætta steðjar að. Í sumar þegar sprengingin mikla varð í miðborg Óslóar birtist útvarpsviðtal við ungan Íslending í Ríkisútvarpinu. Hann hafði dvalið lengi í Noregi og var kominn með eilítinn hreim. Íslenskan klingdi að minnsta kosti eilítið þegar hann sagði frá æðisgengnum flótta sínum og hvert ætli hann hafi nú snúið sér? Jú, til Hennes og Mauritz! Og búsetan í erlendu landi hafði gert hann viðskila hugmyndaheimi landa sinna því honum fannst hann þurfa að taka fram að þetta væri fataverslun. Á því áttuðu vitaskuld vel flestir útvarpsáheyrendur sig, enda margir hverjir líklega klæddir að minnsta kosti einni flík úr þeim ranni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Halldór 23.8.2025 Halldór „I believe the children are our future…“ Karen Rúnarsdóttir Skoðun Vanþekking eða vísvitandi blekkingar? Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Skólaskætingur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir Skoðun Eldri borgarar – áhrif aðildar að Evrópusambandinu (ESB) Þorvaldur Ingi Jónsson Skoðun Ný sókn í menntamálum Guðmundur Ari Sigurjónsson Skoðun Mikilvægi félagasamtaka og magnað maraþon Þuríður Harpa Sigurðardóttir Skoðun Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um umræðuefni Aðalsteinn Haukur Sverrisson Skoðun Er Akureyri að missa háskólann sinn? Aðalbjörn Jóhannsson Skoðun
Reglulega berst sá kvittur um landið að sænska verslanakeðjan Hennes og Mauritz hyggist opna útibú á Íslandi. Þráin eftir þessari verslun er býsna sterk því enn hefur ekki reynst flugufótur fyrir sögunni. Íslendingar eiga sér þó þann draum að geta keypt sér ódýr og sæmilega smekkleg föt þótt ekki væri nema á börnin sín, en barnafatadeild Hennes og Mauritz hefur reynst þjóðinni sérstaklega vel. Þegar dró úr utanlandsferðum Íslendinga eftir hrun voru nokkrir landar okkar erlendis snöggir að sjá sér leik á borði og tóku að bjóða upp á innkaup í Hennes og Mauritz gegn greiðslu. Tollurinn var reyndar álíka fljótur að átta sig á þessum nýja verslunarmáta og krafðist þess að kaupendur greiddu tilskilin gjöld af góssinu. Við það dró eitthvað úr ávinningnum. Mörgum finnst samt ómissandi að komast að minnsta kosti einu sinni á ári í Hennes og Mauritz. Eitt sinn heyrði ég af hjónum sem vörðu heilum degi af fremur stuttri Mílanóferð til að aka á bílaleigubíl út í eitthvert úthverfið til að komast í þessa búð. Síðasta máltíð Krists eftir Leonardo da Vinci hafði ekki sama aðdráttaraflið og fataslárnar, nema hjónin hafi bara langað til að vera í nýju dressi þegar þau loksins hittu þá félagana. Fyrir nokkru hlustaði ég líka á tal vinkvenna sem höfðu farið saman til Rotterdam þar sem er að finna stórkostlega höfn, góð söfn og magnaðan arkitektúr. Ein úr hópnum kom staðnum ekki alveg fyrir sig í fyrstu en var snögg að átta sig: „Var það þar sem við fórum í Hennes og Mauritz?" spurði hún. Jú, jú, hún hafði rétt fyrir sér og minningarnar streymdu óðara fram. Hennes og Mauritz-búðirnar varða leið hagsýna fólksins um Evrópu. Svo má líka leita þangað þegar hætta steðjar að. Í sumar þegar sprengingin mikla varð í miðborg Óslóar birtist útvarpsviðtal við ungan Íslending í Ríkisútvarpinu. Hann hafði dvalið lengi í Noregi og var kominn með eilítinn hreim. Íslenskan klingdi að minnsta kosti eilítið þegar hann sagði frá æðisgengnum flótta sínum og hvert ætli hann hafi nú snúið sér? Jú, til Hennes og Mauritz! Og búsetan í erlendu landi hafði gert hann viðskila hugmyndaheimi landa sinna því honum fannst hann þurfa að taka fram að þetta væri fataverslun. Á því áttuðu vitaskuld vel flestir útvarpsáheyrendur sig, enda margir hverjir líklega klæddir að minnsta kosti einni flík úr þeim ranni.