
Hörð deila kom upp milli embættanna í haust eftir að Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við embættisfærslur Ríkislögreglustjóra vegna viðskipta við fyrirtæki sem tengd eru lögreglumönnum.
Fyrir rúmum mánuði bað Ríkisendurskoðun um áðurnefnd gögn, en Ríkislögreglustjóri sagðist í bréfi í síðustu viku myndu bíða með að afhenda þau þar til Sveinn Arason ríkisendurskoðandi hefði sagt sig frá málinu. Sagði hann ekki ríkja traust milli stofnananna eftir það sem á undan hafði gengið í samskiptum þeirra á milli.
Í bréfi ráðuneytisins til Ríkislögreglustjóra er hins vegar farið fram á að umbeðnar upplýsingar verði afhentar Ríkisendurskoðun, en ekki er tekin afstaða til þess hvort ríkisendurskoðandi skuli víkja sæti í málinu.
Sveinn sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að þessi ákvörðun ráðuneytisins kæmi honum ekki á óvart. „Við bjuggumst við því að ráðuneytið myndi hjálpa okkur við að afla svara,“ sagði hann og bjóst við að fá upplýsingarnar fyrir tiltekinn frest. - þj