Handbolti

Þórir Hergeirsson telur að Norðmenn vinni Ísland í kvöld

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Mynd/Pjetur
„Leikur Íslands og Króatíu var ekki eins góður og margir hafa sagt. Það er allt opið í viðureign Noregs og Íslands," segir Þórir Hergeirsson, þjálfari heimsmeistaraliðs Noregs í kvennahandboltanum. Flestir handboltasérfræðingar eru á þeirri skoðun að Íslendingar séu mun sigurstranglegri gegn Noregi þegar liðin mætast á EM í Serbíu í kvöld en Þórir er á annarri skoðun.

„Það var ekki mikið um góðan sóknarleik í leik Íslands og Króatíu. Varnarleikur beggja liða var ekkert sérstakur og Króatar voru ekki sannfærandi þrátt fyrir að þeir hafi sigrað," segir Þórir í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten. Þórir landaði gullverðlaunum sem þjálfari norska kvennalandsliðsins á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Brasilíu í desember s.l.

„Það vantar tvo lykilmenn í íslenska liðið (Ólaf Stefánsson og Snorra Stein Guðjónsson). Þar að auki hefur Ingimundur Ingimundarson verið meiddur. Íslendingar eiga í vandræðum með varnarleikinn. Noregur er með betri markvörð og það eitt getur orðið til þess að Noregur vinni. Leikur liðsins þarf að vera jafnari en þeir sýndu gegn Slóvenum. Ísland mun lenda í erfiðleikum ef vörnin og markvarslan verður góð – líkt og í byrjun og lok leiksins gegn Slóvenum."

Að mati Þóris eru Íslendingar með yfirhöndina í tveimur stöðum á vellinum. „Alexender Petersson er betri en Christoffer Rambo. Guðjón Valur Sigurðsson er í sérflokki í vinstra horninu. Aron Pálmarsson þarf að spila betur en hann gerði gegn Króatíu."

Þórir er í vafa um með hvoru liðinu hann mun halda í leiknum í kvöld. „Ég á ekki í erfiðleikum með að gleðjast, hvernig sem leikurinn fer. Ég vona bara að leikurinn verði skemmtilegur," segir Þórir.

Norðmenn hafa ekki lagt Ísland að velli á stórmóti frá því að Kjetil Strand skoraði 19 mörk gegn Íslandi á EM í Sviss árið 2006. Ísland vann Noreg á EM árið 2010 og einnig á HM í Svíþjóð á síðasta ári, 29-22.

Leikurinn hefst kl. 19.10 og verður bein textalýsing frá leiknum á Vísi þar sem tölfræðin úr leiknum uppfærist í rauntíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×