Skrímslið í Eystrasaltslöndunum Magnús Halldórsson skrifar 22. janúar 2012 00:49 Ég horfði fyrir skömmu á heimildamyndaröð breska ríkisútvarpsins BBC um seinni heimstyrjöldina í sex hlutum. Sérstök áhersla var lögð mikilvægar orrustur í Austur-Evrópu, einkum Eystrasaltslöndunum. Þessir þættir voru unnir á löngum tíma með viðtölum við fólk sem upplifði þessa atburði. Meðal gagna sem fjallað var um í þáttunum voru myndbandsupptökur af aftökum í Eystrasaltsríkjunum. Þær sýndu ótrúlega illsku, ekki síst þegar hermenn úr liði nasista sögðu börnum að hlaupa og hófu síðan að skjóta þau á færi. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvers konar hörmungar íbúar í Eystrasaltslöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, þurftu að þola á stríðsárunum fyrr en ég sá þessa þætti. Löndin voru lögð í rúst frá öllum hliðum. Innviðir skemmdir Samfélögin voru ekki bara eyðilögð að innan, með niðurlægingu, drápum og árásum, heldur voru þeir litlu innviðir sem þó voru fyrir hendi, þar á meðal samgöngur og byggingar, eyðilagðir skipulega. Í Eistlandi dó fjórðungur íbúa í seinni heimstyrjöldinni. Í Lettlandi og Litháen voru hlutföllin litlu minni. Hlutfallslega var þetta mesta mannfall þjóða í stríðinu. Í Lettlandi og Litháen voru framdir einhverjir ógeðfelldustu glæpir seinni heimstyrjaldarinnar, samkvæmt þáttunum, og er þó af nógu að taka. Litháar voru fórnarlömb grimmdarglæpa af hálfu Rússneskra hermanna, sem voru hluti af herliði Sovétríkjanna, á árunum 1939 til 1941 og síðan að hálfu nasista 1941 til 1944. Allt um kring, árum saman, stóðu þessi ríki berskjölduð gagnvart hervaldinu. Gyðingum var eytt eins og illgresi. Myndskeið úr þáttum BBC af því þegar gyðingur var ofsóttur á götu í Vilníus, algjörlega varnarlaus, barinn og niðurlægður, sýndi hvers konar villimennsku íbúarnir bjuggu við. Fyrstu árin eftir stríð tóku svo Rússar völdin aftur og héldu grimmdarverkum áfram. Þau fólust í hroðalegu líkamlegu ofbeldi gagnvart fólki úr öllum stéttum, en þó ekki síst konum. Innanmein Það er merkilega stutt síðan þessar hörmungar áttu sér stað, eða ríflega 70 ár. Vonandi munu fyrrnefnd ríki – frekar en nokkur önnur – aldrei þurfa að upplifa aðra eins tíma. Löndin hafa styrkt innviði sína og komið mörgum á óvart með efnahagslegum klókindum og framþróun, ekki síst í þeim ólgusjó sem gengið hefur yfir alþjóðamarkaði frá miðju ári 2007. Samkvæmt spá The Economist fyrir árið 2012 er því spáð að hagvöxtur í Eistlandi verið 2,5%, í Lettlandi 2,8% og í Litháen 2,7%. Þrátt fyrir þetta eru glæpir í þessum ríkjum því miður rótfastur hluti af daglegu lífi og þeirra helsta innanmein. Helst er það sú tegund glæpa sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst sem „mesta smánarbletti á samfélagi manna". Það er mansal. Fórnarlömb þess eru af lýsingum að dæma að upplifa í það minnsta jafn hroðalega meðhöndlun á sál og líkama og íbúar í löndunum þurftu að þola á stríðsárunum. Í þetta skiptið er þetta minni hópur, en líkt og á stríðsárunum þá ganga brotamennirnir skipulega til verks og svífast einskis. Opinber gögn SÞ um mansal, þá ekki síst ítarleg skýrsla stofnunar SÞ frá því í febrúar 2009 sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi, UNODC, sýnir að vandamálið er umsvifamikið og fer vaxandi. Í Eistlandi búa tæplega 1,3 milljónir manna, í Lettlandi ríflega 2,2 milljónir manna og í Litháen um þrjár milljónir manna. Sé mið tekið af því að fyrrnefnd ríki teljast vera smáríki eru mansalsglæpir ótrúlega algengir í þessum löndum. Í Eistlandi einu koma upp að meðaltali tæplega 140 dómsmál á ári í tengslum við mansal. Á árinu 2006 voru 84 einstaklingar dæmdir í fangelsi í tengslum við mansalsglæpi. Þeim hefur farið fjölgandi síðan, og voru yfir hundrað árið 2008. Það telst hlutfallslega mikið samanborið við önnur ríki og íbúafjölda. Erfitt viðureignar Almennt er álitið að fáar tegundir glæpa séu illviðráðanlegri í rannsóknum heldur en mansalið. Helst eru það erfiðleikar við að fylgjast með og greina glæpina sem við er að eiga. Oft eru fórnarlömbin misnotuð með lyfjagjöf og gerð andlega dauf fyrir því í hvernig aðstæður þau eru komin í. Andrúmsloft blekkingar ræður ríkjum, einkum á fyrstu stigum glæpanna þegar ungar stúlkur og konur eru leiddar út í mansal án þess að átta sig á því. Eftir það eru rannsakendur í miklu kappi við tímann, því oft spyrst ekkert til þeirra ungu kvenna sem hverfa eftir að í gildruna er komið. En af hverju eru Eystrasaltsríkin svo illa haldin af þessu innameini sem mansalið er? Nokkur atriði í þessu samhengi, sem UNODC hefur fjallað um í skýrslum sínum, sem gefa vísbendingar um hvers vegna Eystrasaltslöndin eru að glíma við þetta vandamál: - Yfir 70 prósent af hörðum fíkniefnum, þar á meðal um 85% af heróíni, koma inn á markaði frá Afganistan gegnum Asíu, Austur-Evrópu og þaðan til Evrópu. Samhliða þessum miklu smyglleiðum, sem liggja meðal annars gegnum Eystrasaltsríkin, stunda skipulögð glæpasamtök aðra tegund glæpa, þar á meðal mansalið. Fullyrt er í skýrslu UNODC um mansal að það sé sífellt að verða meira samhangandi við smyglleiðir stórra glæpahópa. Ungum konun, oftast nær, er smyglað með öðrum varningi. Staðsetning landanna á heimskortinu, í ljósi þess að í gegnum þau er fíkniefnum smyglað í miklu magni til Evrópu, er ein skýring á því að skipulagt mansal er rótfast vandamál í löndunum. - Verksmiðjuframleidd fíkniefni eru með sterkar rætur í Eystrasaltsríkjunum af sögulegum ástæðum. Gamlar efnaverksmiðjur hafa verið nýttar til framleiðslu. Hið svarta hagkerfi hefur stækkað hratt í þessum ríkjum, samkvæmt skýrslum SÞ. Angar þessa skipulega ferils hafa sést hér á landi í mörgum málum, og hafa þeir sem besta yfirsýn hafa hjá lögreglu staðfest við fjölmiðla að keðja þessara glæpasamtaka fari um Ísland. Dómsmál eru til frekara vitnis um það. Samhliða þessari uppbyggingu á verksmiðjuframleiddum fíkniefnum, t.d. amfetamíntöflum, er mansalið aldrei langt undan samkvæmt skýrslum Sameinuðu þjóðanna. Góð tengsl víða um Evrópu, þar sem glæpamenn hafa komið sér fyrir, hafa auðveldað uppbyggingu á skipulögðum glæpum. - Landamæraeftirlit hefur verið hert með öllum mögulegum ráðum, en það hefur ekki minnkað framleiðslu fíkniefna eða umfang smygls nema að litlu leyti. Helstu framfarirnar þegar kemur að aðgerðum til að sporna við fíkniefnaiðnaðinum í löndunum og mansalinu felast í betri yfirsýn, að því er segir í skýrslu SÞ. Eftir að sérstöku átaki var hrint af stað í aðildarríkjum SÞ, fyrir tæpum áratug, hefur upplýsingasöfnun gengið betur og kortlagning á heildarmynd vandamálanna einnig. Að því leytinu til er meira vitað um mansal en fyrir tiltölulega fáum árum, en vandamálið er eftir sem áður stórt og er talið vera að stækka. Risaiðnaður á heimsvísu Stærð mansalsiðnaðar í peningum mælt er ógnvænleg, samkvæmt opinberum upplýsingum. Hann er talinn velta í það minnsta 50 milljörðum dollara á ári, eða sem nemur tæplega 6.200 milljörðum króna. Það eru ríflega fjórar árlegar íslenskar landsframleiðslur. Antonio Maria Costa, framkvæmdastjóri UNODC, sagði í ræðu um mansal í Vínarborg 13. febrúar 2008 að mansalsiðnaðurinn væri „skrímsli" sem feli sig í „skuggum samfélagsins". Vitundarvakningu þurfi til þess að fólk átti sig á hörmungum þessa þrælahalds nútímans. „Það er erfitt að rannsaka þetta skrímsli vegna þess að skilgreiningin á því liggur þvert á málaflokka rannsakenda. Þrátt fyrir að skilgreining Sameinuðu þjóðanna á „verslun með fólk" sé sértækt skilgreind, þá vantar eftirfylgni víða um heim og meiri skilningi á tengslum við aðra brotaflokka. Okkar stúlkur eru fallegar... þær eru bara vændiskonur," hafa háttsettir embættismenn í einstökum ríkjum sagt við mig. Herrar mínir og frúr, við skulum kalla þetta það sem það er: þrælahald nútímans." (Þessi pistill er númer eitt af sex um mansalsiðnaðinn á heimsvísu og eru þeir byggðir öðru fremur á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um hann. Greinarnar munu birtast vikulega næstu sex vikur á Vísi.is. Næst verður horft til Afríkuríkja, þar sem mansalsvandinn er einna verstur á heimsvísu). Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Halldórsson Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Styrkjum stöðu sjúkraliða fyrir betri heilbrigðisþjónustu Sandra B. Franks Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sterk sveitarfélög skipta máli Heiða Björg Hilmisdóttir Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Ég horfði fyrir skömmu á heimildamyndaröð breska ríkisútvarpsins BBC um seinni heimstyrjöldina í sex hlutum. Sérstök áhersla var lögð mikilvægar orrustur í Austur-Evrópu, einkum Eystrasaltslöndunum. Þessir þættir voru unnir á löngum tíma með viðtölum við fólk sem upplifði þessa atburði. Meðal gagna sem fjallað var um í þáttunum voru myndbandsupptökur af aftökum í Eystrasaltsríkjunum. Þær sýndu ótrúlega illsku, ekki síst þegar hermenn úr liði nasista sögðu börnum að hlaupa og hófu síðan að skjóta þau á færi. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvers konar hörmungar íbúar í Eystrasaltslöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, þurftu að þola á stríðsárunum fyrr en ég sá þessa þætti. Löndin voru lögð í rúst frá öllum hliðum. Innviðir skemmdir Samfélögin voru ekki bara eyðilögð að innan, með niðurlægingu, drápum og árásum, heldur voru þeir litlu innviðir sem þó voru fyrir hendi, þar á meðal samgöngur og byggingar, eyðilagðir skipulega. Í Eistlandi dó fjórðungur íbúa í seinni heimstyrjöldinni. Í Lettlandi og Litháen voru hlutföllin litlu minni. Hlutfallslega var þetta mesta mannfall þjóða í stríðinu. Í Lettlandi og Litháen voru framdir einhverjir ógeðfelldustu glæpir seinni heimstyrjaldarinnar, samkvæmt þáttunum, og er þó af nógu að taka. Litháar voru fórnarlömb grimmdarglæpa af hálfu Rússneskra hermanna, sem voru hluti af herliði Sovétríkjanna, á árunum 1939 til 1941 og síðan að hálfu nasista 1941 til 1944. Allt um kring, árum saman, stóðu þessi ríki berskjölduð gagnvart hervaldinu. Gyðingum var eytt eins og illgresi. Myndskeið úr þáttum BBC af því þegar gyðingur var ofsóttur á götu í Vilníus, algjörlega varnarlaus, barinn og niðurlægður, sýndi hvers konar villimennsku íbúarnir bjuggu við. Fyrstu árin eftir stríð tóku svo Rússar völdin aftur og héldu grimmdarverkum áfram. Þau fólust í hroðalegu líkamlegu ofbeldi gagnvart fólki úr öllum stéttum, en þó ekki síst konum. Innanmein Það er merkilega stutt síðan þessar hörmungar áttu sér stað, eða ríflega 70 ár. Vonandi munu fyrrnefnd ríki – frekar en nokkur önnur – aldrei þurfa að upplifa aðra eins tíma. Löndin hafa styrkt innviði sína og komið mörgum á óvart með efnahagslegum klókindum og framþróun, ekki síst í þeim ólgusjó sem gengið hefur yfir alþjóðamarkaði frá miðju ári 2007. Samkvæmt spá The Economist fyrir árið 2012 er því spáð að hagvöxtur í Eistlandi verið 2,5%, í Lettlandi 2,8% og í Litháen 2,7%. Þrátt fyrir þetta eru glæpir í þessum ríkjum því miður rótfastur hluti af daglegu lífi og þeirra helsta innanmein. Helst er það sú tegund glæpa sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst sem „mesta smánarbletti á samfélagi manna". Það er mansal. Fórnarlömb þess eru af lýsingum að dæma að upplifa í það minnsta jafn hroðalega meðhöndlun á sál og líkama og íbúar í löndunum þurftu að þola á stríðsárunum. Í þetta skiptið er þetta minni hópur, en líkt og á stríðsárunum þá ganga brotamennirnir skipulega til verks og svífast einskis. Opinber gögn SÞ um mansal, þá ekki síst ítarleg skýrsla stofnunar SÞ frá því í febrúar 2009 sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi, UNODC, sýnir að vandamálið er umsvifamikið og fer vaxandi. Í Eistlandi búa tæplega 1,3 milljónir manna, í Lettlandi ríflega 2,2 milljónir manna og í Litháen um þrjár milljónir manna. Sé mið tekið af því að fyrrnefnd ríki teljast vera smáríki eru mansalsglæpir ótrúlega algengir í þessum löndum. Í Eistlandi einu koma upp að meðaltali tæplega 140 dómsmál á ári í tengslum við mansal. Á árinu 2006 voru 84 einstaklingar dæmdir í fangelsi í tengslum við mansalsglæpi. Þeim hefur farið fjölgandi síðan, og voru yfir hundrað árið 2008. Það telst hlutfallslega mikið samanborið við önnur ríki og íbúafjölda. Erfitt viðureignar Almennt er álitið að fáar tegundir glæpa séu illviðráðanlegri í rannsóknum heldur en mansalið. Helst eru það erfiðleikar við að fylgjast með og greina glæpina sem við er að eiga. Oft eru fórnarlömbin misnotuð með lyfjagjöf og gerð andlega dauf fyrir því í hvernig aðstæður þau eru komin í. Andrúmsloft blekkingar ræður ríkjum, einkum á fyrstu stigum glæpanna þegar ungar stúlkur og konur eru leiddar út í mansal án þess að átta sig á því. Eftir það eru rannsakendur í miklu kappi við tímann, því oft spyrst ekkert til þeirra ungu kvenna sem hverfa eftir að í gildruna er komið. En af hverju eru Eystrasaltsríkin svo illa haldin af þessu innameini sem mansalið er? Nokkur atriði í þessu samhengi, sem UNODC hefur fjallað um í skýrslum sínum, sem gefa vísbendingar um hvers vegna Eystrasaltslöndin eru að glíma við þetta vandamál: - Yfir 70 prósent af hörðum fíkniefnum, þar á meðal um 85% af heróíni, koma inn á markaði frá Afganistan gegnum Asíu, Austur-Evrópu og þaðan til Evrópu. Samhliða þessum miklu smyglleiðum, sem liggja meðal annars gegnum Eystrasaltsríkin, stunda skipulögð glæpasamtök aðra tegund glæpa, þar á meðal mansalið. Fullyrt er í skýrslu UNODC um mansal að það sé sífellt að verða meira samhangandi við smyglleiðir stórra glæpahópa. Ungum konun, oftast nær, er smyglað með öðrum varningi. Staðsetning landanna á heimskortinu, í ljósi þess að í gegnum þau er fíkniefnum smyglað í miklu magni til Evrópu, er ein skýring á því að skipulagt mansal er rótfast vandamál í löndunum. - Verksmiðjuframleidd fíkniefni eru með sterkar rætur í Eystrasaltsríkjunum af sögulegum ástæðum. Gamlar efnaverksmiðjur hafa verið nýttar til framleiðslu. Hið svarta hagkerfi hefur stækkað hratt í þessum ríkjum, samkvæmt skýrslum SÞ. Angar þessa skipulega ferils hafa sést hér á landi í mörgum málum, og hafa þeir sem besta yfirsýn hafa hjá lögreglu staðfest við fjölmiðla að keðja þessara glæpasamtaka fari um Ísland. Dómsmál eru til frekara vitnis um það. Samhliða þessari uppbyggingu á verksmiðjuframleiddum fíkniefnum, t.d. amfetamíntöflum, er mansalið aldrei langt undan samkvæmt skýrslum Sameinuðu þjóðanna. Góð tengsl víða um Evrópu, þar sem glæpamenn hafa komið sér fyrir, hafa auðveldað uppbyggingu á skipulögðum glæpum. - Landamæraeftirlit hefur verið hert með öllum mögulegum ráðum, en það hefur ekki minnkað framleiðslu fíkniefna eða umfang smygls nema að litlu leyti. Helstu framfarirnar þegar kemur að aðgerðum til að sporna við fíkniefnaiðnaðinum í löndunum og mansalinu felast í betri yfirsýn, að því er segir í skýrslu SÞ. Eftir að sérstöku átaki var hrint af stað í aðildarríkjum SÞ, fyrir tæpum áratug, hefur upplýsingasöfnun gengið betur og kortlagning á heildarmynd vandamálanna einnig. Að því leytinu til er meira vitað um mansal en fyrir tiltölulega fáum árum, en vandamálið er eftir sem áður stórt og er talið vera að stækka. Risaiðnaður á heimsvísu Stærð mansalsiðnaðar í peningum mælt er ógnvænleg, samkvæmt opinberum upplýsingum. Hann er talinn velta í það minnsta 50 milljörðum dollara á ári, eða sem nemur tæplega 6.200 milljörðum króna. Það eru ríflega fjórar árlegar íslenskar landsframleiðslur. Antonio Maria Costa, framkvæmdastjóri UNODC, sagði í ræðu um mansal í Vínarborg 13. febrúar 2008 að mansalsiðnaðurinn væri „skrímsli" sem feli sig í „skuggum samfélagsins". Vitundarvakningu þurfi til þess að fólk átti sig á hörmungum þessa þrælahalds nútímans. „Það er erfitt að rannsaka þetta skrímsli vegna þess að skilgreiningin á því liggur þvert á málaflokka rannsakenda. Þrátt fyrir að skilgreining Sameinuðu þjóðanna á „verslun með fólk" sé sértækt skilgreind, þá vantar eftirfylgni víða um heim og meiri skilningi á tengslum við aðra brotaflokka. Okkar stúlkur eru fallegar... þær eru bara vændiskonur," hafa háttsettir embættismenn í einstökum ríkjum sagt við mig. Herrar mínir og frúr, við skulum kalla þetta það sem það er: þrælahald nútímans." (Þessi pistill er númer eitt af sex um mansalsiðnaðinn á heimsvísu og eru þeir byggðir öðru fremur á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um hann. Greinarnar munu birtast vikulega næstu sex vikur á Vísi.is. Næst verður horft til Afríkuríkja, þar sem mansalsvandinn er einna verstur á heimsvísu).