Handbolti

Fréttamaður TV2: Má réttlæta dómgæsluna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Köln skrifar
Ulrik Jönsson, íþróttafréttamaður hjá TV2 í Danmörku, segir að viðbrögð þar í landi eftir leik AG og Atletico Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær hafi verið blendin.

AG tapaði fyrir Atletico Madrid í undanúrslitum keppninnar með tveggja marka. Dómarar leiksins höfðu mikil áhrif á lokamínúturnar og fannst mörgum að AG hafi verið beitt órétti.

„Viðbrögðin í Danmörku hafa verið mjög blendin. Leikmennirnir og eigandi félagsins voru mjög reiðir út í dómara leiksins. En margir sérfræðingar sem hafa skoðað atvikin í sjónvarpi segja að réttlæta megi ákvarðanir dómaranna," sagði Jönsson en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Undir lokin komst AG í hraðaupphlaup og Guðjón Valur skoraði mark sem var dæmt af vegna sóps. Jönsson segist ekki hafa séð atvikið nógu vel sjálfur.

„Ég ræddi við Jesper Jensen, sem spilaði áður með danska landsliðinu, og hann sagði mér að þetta væri réttur dómur, þó svo að vissulega væri ekki venjulega flautað á svona lagað."

„Það eru þessi litlu atriði sem féllu ekki með AG í leiknum og þetta er eitt dæmi um það."

Jönsson segir að viðbrögð leikmanna AG séu skiljanleg. „Það er innprentað í þá að vinna alla leiki, sama hvort það sé í Final Four eða ekki. Vonbrigðin voru því mikil fyrir þá."

Hann á von á jöfnum og spennandi leik á milli AG og Füchse Berlin í bronsleiknum í dag.

„Ég tel að þessi leikur skipti Füchse Berlin meira máli en AG. Nú þegar það liggur fyrir að AG verði ekki meistari þá verður erfitt fyrir leikmenn liðsins að gíra sig upp í leikinn. Füchse Berlin hefur hins vegar enn að miklu að keppa."

„Ég tel að AG sé með sterkara lið en að hugarfar Füchse Berlin verði betra í leiknum. Ég ræddi við Joachim Boldsen og hann sagði mér að það væri algjörlega tilgangslaust að spila þessa bronsleiki. Ég á því von á spennandi leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×