Handbolti

Katarar setja rúman milljarð í handboltaliðið í París

Það er nóg til af peningum hjá hinu nýja félagi Ásgeirs og Róberts.
Það er nóg til af peningum hjá hinu nýja félagi Ásgeirs og Róberts. mynd/vilhelm
Félag Róberts Gunnarssonar og Ásgeirs Arnars Hallgrímssonar, Paris Handball, verður ef að líkum lætur orðið eitt stærsta félag Evrópu innan nokkurra ára enda á að dæla peningum í félagið.

Hinir moldríku Katarar sem eiga knattspyrnuliðið í París, PSG, ætla að taka yfir handboltaliðið og setja í það 7 milljónir evra eða rúmlega 1,1 milljarð íslenskra króna. Markmið liðsins í kjölfarið er augljóst.

Paris Handball rétt slapp við fall í vetur og mun því leika áfram í efstu deild. Í sumar koma Róbert og Ásgeir til liðsins og klárlega er von á fjölda annarra leikmanna.

Franski landsliðsmaðurinn Luc Abalo er sagður vera á leið til félagsins en það mun kosta eina milljón evra að losa hann undan samningi við Atletico Madrid. Það er afar há fjárhæð í handboltaheiminum.

Paris ætlar sér einnig að fá sterkan þjálfara og er Noka Serdarusic, fyrrum þjálfari Kiel, sagður vera efstur á lista hjá félaginu.

Það er því óhætt að segja að afar spennandi tímar séu fram undan hjá félagi Róberts og Ásgeirs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×