Íslenski boltinn

KR-ingar unnu sinn hundraðasta bikarsigur á Skaganum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
KR-ingar tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum Borgunarbikarsins í gær með því að vinna 2-0 sigur á ÍA upp á Akranesi. Atli Sigurjónsson og Óskar Örn Hauksson skoruðu mörk KR og komu þau bæði á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Ólafur Brynjar Halldórsson, tölfræðingur KR-inga, hefur grafið það upp að þarna hafi KR-liðið unnið sinn hundraðasta bikarleik frá upphafi en KR varð bikarmeistari í tólfta sinn síðasta sumar. Þetta kemur fram á heimasíðu KR-inga.

KR-ingar léku sinn fyrsta bikarleik 1. október 1960 og unnu þá 3-0 sigur á ÍBH en KR tapaði ekki bikarleik fyrstu fimm ár keppninnar, 1960-1964. KR hefur unnið 100 af 151 bikarleik sínum, 13 hefur endað með jafntefli og 38 sinnum hefur KR-liðið tapað bikarleik.

KR-ingar hafa oftast leikið við Fram, 22 leiki, 13 við ÍBV og 12 við ÍA og Keflavík. KR-ingar hafa unnið Framara 11 sinnum, Skagamenn níu sinnum og Keflavíkinga sjö sinnum en tapað níu sinnum fyrir Fram og sex sinnum fyrir ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×