Golf

Kristján 104 sætum fyrir ofan Ólaf eftir fyrsta daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Þór Einarsson úr Kili.
Kristján Þór Einarsson úr Kili. Mynd/GVA
Kristján Þór Einarsson úr Kili og Ólafur Björn Loftsson úr Nesklúbbnum eru búnir með fyrsta hring á opna breska áhugamanna golfmótinu sem fram fer í Skotlandi en leikið er á bæði Glasgow Gailes Links og Royal Troon völlunum.

Kristján spilaði sínar 18 holur á Royal Troon vellinum og lék hringinn á pari eða 71 höggi. Hann er í 41. til 68. sæti en 64 efstu komast í gegn um niðurskurðinn sem verður eftir morgundaginn.

Það gekk ekki eins vel hjá Ólafi sem lék Glasgow Gailes á 74 höggum eða þremur höggum yfir pari sem skilaði honum 145. til 184. sæti.

Ólafur byrjaði samt mjög vel og lék ellefu fyrstu holur dagsins á tveimur höggum undir pari. Hann fékk þá fjóra skolla í röð og tapaði á endanum fimm höggum á síðustu sjö holunum.

Kristján er því 104 sætum fyrir ofan Ólaf eftir fyrsta daginn en Ólafur er þó bara þremur höggum á eftir honum og á líka möguleika á því að ná niðurskurðinum takist honum að spila jafnvel og hann gerði á fyrstu ellefu holunum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×