Golf

Egils Gull mótið: Berglind stóðst áhlaup Sunnu og vann í Eyjum

Sigurður Elvar Þórólfsson í Vestmannaeyjum skrifar
Berglind Björnsdóttir.
Berglind Björnsdóttir. Mynd/Golfsamband Íslands/Stefán
Berglind Björnsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigraði á Egils Gull mótinu í golfi í kvennaflokki en keppt er í Vestmannaeyjum. Berglind, sem er tvítug, lék hringina þrjá á 11 höggum yfir pari vallar en Sunna Víðisdóttir varð önnur á 11 höggum yfir pari. Sunn lék frábært golf í dag og lék hún á 67 höggum eða -3 og var það besti hringurinn í kvennaflokknum á þessu móti. Signý Arnórsdóttir úr Keili varð þriðja á 14 höggum yfir pari.

Berglind Björnsdóttir lék lokahringinn í dag á 72 höggum eða +2 og hún átti fínan hring í gær í erfiðum aðstæðum þar sem hún lék á 71 höggi. Mikið hvassviðri setti svip sinn á skor keppenda á fyrsta hringnum snemma á laugardaginn og þar lék Berglind á 78 höggum.

„Þetta var bara verkefni að glíma við þetta veður," sagði Berglind við Vísi í dag en hún hefur aldrei áður sigrað á stigamótaröð Eimskips.

„Ég vissi ekkert hvernig staðan var, ég var bara þarna úti að reyna að ná góðu skori," sagði Berglind en hún er með 1,4 í forgjöf og stundar háskólanám í Bandaríkjunum samhliða golfinu.

„Ég er á mínu fyrsta ári í skóla í Norður-Karólínu og það gekk bara vel. Það er mikill munur að fá tækifæri til þess að leika golf við bestu aðstæður yfir vetrartímann. Markmiðið er að lækka forgjöfina í sumar og komast undir 0 í forgjöf. Ég reyndi að nýta mér það á þessu móti það sem ég hef lært úti í Bandaríkjunum. Ég er of kröfuhörð við sjálfa mig þegar mér hefur gengið illa – í stað þess að njóta þess að spila. Eitt af markmiðum sumarsins er að ná betra jafnvægi í leik minn," sagði Berglind Björnsdóttir.

Sunna Víðasdóttir er 18 ára gömul og leikur fyrir GR. Hún átti fínan lokahring og gerði atlögu að efsta sætinu með því að leika á 67 höggum eða -3.

„Ég klúðraði þessu á fyrsta hringnum þar sem flest fór úrskeiðis þrátt fyrir að vera með 5 fugla. Það er svekkjandi að hafa ekki náð að landa þessu," sagði Sunna en hún hefur sigrað á tveimur stigamótum á ferlinum á Eimskipsmótaröðinni.

„Það er meiri breidd en áður í golfinu og við erum margar sem getum unnið," sagði Sunna en hún ætlar í háskólanám í vetur í Bandaríkjunum líkt og svo margir aðrir íslenskir afrekskylfingar.

„Ég var að klára þriðja árið í Verslunarskólanum en ég ætla bara að drífa mig út," sagði Sunna Víðisdóttir.



Lokastaðan í kvennaflokki á Egils Gull mótinu:

1. Berglind Björnsdóttir, GR +11

2. Sunna Víðisdóttir, GR +12

3. Signý Arnórsdóttir, GK +14

4. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR +18

5. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK +19

6. Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO +21

7. Guðrún Pétursdóttir, GR +23

7. Tinna Jóhannsdóttir, GK +23

7. Ragna Björk Ólafsdóttir, GKG +23

10. Ingunn Gunnarsdóttir, GKG +24




Fleiri fréttir

Sjá meira


×