Viðskipti erlent

Fréttaskýring: Blóðugur bardagi Facebook við fjárfesta

Magnús Halldórsson skrifar
Fjárfestar fylgjast grannt með gangi mála hjá Facebook þessi misserin, eftir missheppnaða skráningu á markað.
Fjárfestar fylgjast grannt með gangi mála hjá Facebook þessi misserin, eftir missheppnaða skráningu á markað.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því samfélagsmiðillinn Facebook var skráður á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum, 18. maí sl. Gengi bréfa félagsins er tæplega 20 dalir á hlut en við skráningu var félagið verðmetið á 38 dali á hlut, eða næstum tvöfalt meira en verðlagning þess á markaði nú segir til um. Miðað við skráningargengið var félagið verðmetið á 104 milljarða dala, eða sem nemur liðlega 12.500 milljörðum króna. Nú er þessi verðmiði tæplega helmingi lægri eða sem nemur 6.500 milljörðum króna.

Blóðugt

Mikillar óánægju gætir meðal margra fjárfesta sem keyptu hlutabréf í Facebook í aðdraganda skráningar eða skömmu eftir að opnað var formlega fyrir viðskipti með bréfin í Nasdaq kauphöllinni. Bréfin voru seld alltof dýrt, og telja margir þeirra sem keyptu bréf að blekkingar hafi ráð för við verðlagningu á félaginu, og hafa spjótin m.a. beinst að fjárfestingabankanum JP Morgan Chase sem sá um útboðið fyrir hönd Facebook. Hefur deilum um þessi atriði verið líkt við blóðugan bardaga í fjölmiðlum.

Í grein sem birtist í The New York Times í dag er haft eftir Dan Alpert, einum eiganda fjárfestingabankans Westwood Capital, sem tók ekki þátt í útboði með Facebook-bréfin, að það sem eftir standi nú er að forsvarsmenn Facebook geti sannfært markaðinn um að það geti hagnast á viðskiptum sínum til framtíðar litið. Markaðurinn er ekki sannfærður um það, segir Alpert. Ráðgjafafyrirtækið Morningstar segir þó í greiningu að hlutabréf Facebook séu orðin það ódýr að það muni hugsanlega borga sig að kaupa þau núna.

Símar og Facebook-gjaldmiðill

Forsvarsmenn Facebook, með stofnandann, framkvæmdastjórann og einn stærsta eigandann Mark Zuckerberg í broddi fylkingar, segjast þó ekki af baki dottnir. Þeir segja gríðarlega mikil tækifæri liggja í þeim mikla notendafjölda sem sé á Facebook, sem er um milljarður manna á heimsvísu. Fjölgunin á notendum í farsímum er mjög hröð, en um 500 milljónir manna um allan heim nota nú Facebook í símanum. Það er ekki síst þar sem tækifærin eru sögð liggja, þar sem möguleikar á tengingunum við svo til óplægðan auglýsingamarkað, verslun og ýmsa þjónustu, sem hefur verið að færast hratt yfir í snjallsíma, eru miklir. Þetta gæti styrkt tekjumyndun Facebook til framtíðar litið. Þá hafa einnig komið fram hugmyndir hjá forsvarsmenn Facebook um að styrkja enn frekar samfélagsmiðilinn með útgáfu á eigin gjaldmiðli sem notendur geti keypt fyrir raunverulega peninga. Með Facebook-gjaldmiðlinum verði síðan mögulegt að kaupa ýmsar vörur sem boðið verður upp í verslun á vegum Facebook. Ekkert af þessu er þó komið fram enn.

Tólffalt lægri tekjur en hjá Google

Heildartekjur Facebook í fyrra námu um 3,2 milljörðum dala, eða sem nemur ríflega 380 milljörðum króna, og nam rekstrarhagnaður um einum milljarði dala, um 120 milljörðum króna. Verðmiðinn á Facebook, þegar það var skráð á markað, nam því ríflega hundraðföldum hagnaði ársins í fyrra. Reksturinn, sem byggir fyrst og fremst á auglýsingatekjum, er þó ekki svo slæmur, miðað við heildarveltu. En miklar væntingar hafa verið byggðar upp, sem erfitt er að segja til um hvort séu byggðar á raunhæfum markmiðum um vöxt.

Facebook hefur verið frekar umdeildur auglýsingavettvangur í Bandaríkjunum. Markaðsdeild General Motors, stærsta auglýsanda Bandaríkjanna, gafst upp á að auglýsa á Facebook og sagði auglýsingar þar ekki virka nægilega vel. Þetta varð kveikjan að umræðu um auglýsingar á Facebook og hvort þær virkuðu nægilega vel yfir höfuð, en helsti keppinautur Facebook er Google, sem er langasamlega stærsti auglýsingavettvangur á vefnum í heiminum, og fer ört stækkandi. Heildartekjur Google á ári námu tæplega 40 milljörðum dala, eða sem nemur ríflega tólfföldum árstekjum Facebook. Með lengri reynslu og frekar upplýsingum mun koma betur í ljós hvernig Facebook virkar sem auglýsingavettvangur, og þá hvernig neytendur nýta sér miðilinn.

Geimverur

Þrátt fyrir ýmsar hindranir, og um margt misheppnaða skráningu á markað, telja forsvarsmenn Facebook að framtíð miðilsins sé björt og tækifærin slík, að erfitt sé að klúðra þeim. Sam Hamadeh, sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu PrivCo, segir að fjárfestar á Wall Street séu ekkert alltof spenntir fyrir stjórnendateymi Facebook. „Wall Street lítur á 28 ára hakkara, sem eru forstjórar, [Mark Zuckerberg forstjóri Facebook er 28 ára innsk. blm]., sem geimverur. Stundum getur þessi einstaklingur hjálpað þér. En þegar á móti blæs, þá verða fjárfestar mjög varir um sig og vantreysta þeim."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×