Viðskipti erlent

Meðstofnandi Facebook losar sig við hlutabréf

Dustin Moskovitz.
Dustin Moskovitz. mynd/AFP
Dustin Moskovitz, meðstofnandi Facebook og fyrrverandi herbergisfélagi Mark Zuckerberg, seldi í dag 450 þúsund bréf í samskiptamiðlinum. Moskovitz fékk 8.7 milljónir dollara í sinn hlut fyrir bréfin eða það sem nemur tæplega 1.1 milljarði íslenskra króna.

Síðustu daga hefur Moskovitz verið að losa sig við hlutabréf sín í Facebook og hefur hann verið að selja um 150 þúsund bréf á dag. Gengi bréfanna hefur verið á milli 19 til 19.49 dollarar.

Gengi hlutabréfa Facebook hefur verið á niðurleið frá því að miðillinn var skráður á hlutabréfamarkað í New York fyrr í sumar. Upphaflegt gengi bréfanna var 38 dollarar. Síðustu tvær vikur hafa bréfin ekki náð yfir 20 dollara.

Moskovitz, sem er 28 ára gamall, var herbergisfélagi Zuckerbergs í Harvard. Þeir stofnuðu Facebook árið 2004. Moskovitz yfirgaf síðan Facebook árið 2008 og stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið Asana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×