Viðskipti erlent

Danir hvetja Kínverja til að fjárfesta í Danmörku

Dönsk stjórnvöld hafa allt aðra afstöðu til kínverskra fjárfestinga en íslensk stjórnvöld. Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Danmerkur hvetur kínverska fjárfesta til að koma til Danmerkur og segir að þeir séu meir en velkomnir.

Þetta kom fram í samtölum ráðherrans við kínverska fjölmiðla í gærdag en Helle Thorning er nú í opinberri heimsókn í Kína. Ráðherrann segir að hann vilji koma þeim skilaboðum til Kínverja að Danmörk sé áhugaverður kostur fyrir þá, hvað fjárfestingar varðar.

Samskipti Dana og Kínverja hafa oft á tíðum verið stirð en árið 2008 gerðu þjóðirnar með sér sérstakan samstarfssamning á sviði loftslagsmála, orkumála og menntunar. Síðan þá hafa samskipti landanna verið með ágætum.

Í umfjöllun Politiken um málið segir að markmið Helle Thorning í heimsókninni til Kína sé m.a. að efla ennfrekar samstarf þjóðanna og styrkja það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×