Körfubolti

Wade og James hissa á því að Thunder lét Harden fara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden og Dwyane Wade.
James Harden og Dwyane Wade. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James, Dwyane Wade og félagar í Miami Heat mættu Oklahoma City Thunder í úrslitunum um NBA-titilinn í sumar en öllum að óvörum ákváðu forráðamenn Oklahoma City að láta eina af sínum stærstu stjörnum fara á dögunum. Wade og James eru báðir hissa á þessari ákvörðun.

Oklahoma City Thunder reyndi að gera nýjan samning við bakvörðinn skemmtilega James Harden en það tókst ekki og ákvað félagið því að skipta honum til Houston Rockets. Thunder fékk meðal annars skorarann Kevin Martin í staðinn frá Houston.

„Þetta var sjokkerandi en en þeir gerðu væntanlega það sem þeim þótti réttast í stöðunni," sagði Dwyane Wade en samningaviðræður Oklahoma City Thunder og James Harden stóðu yfir í langan tíma.

„Þetta hristir aðeins upp í Vesturdeildinni en bæði lið eru að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Ég er ekki framkvæmdastjóri en bæði liðin líta vel út að mínu mati. Thunder hefur góða breidd og Kevin Martin er mjög góður skorari í þessari deild. Við sjáum til hvernig þetta spilast en Tunder er enn að mínu mati enn besta liðið í Vesturdeildinni," bætti Wade við.

„Við vitum allir að James Harden var stór hluti af þeirra liði og hann átti mikinn þátt í því að þeir komust alla leið í lokaúrslitin. Þeir fengu góða leikmenn fyrir hann en við vitum ekki um áhrifin fyrr en við sjáum þá spila," sagði LeBron James en hann sagði jafnframt frá því að leikmenn Miami Heat hefðu mikið rætt um framtíð Harden að undanförnu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×