Viðskipti erlent

Atvinnuleysið aldrei meira

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Vilja ekki niðurskurð.
Vilja ekki niðurskurð. Mynd/AFP
Atvinnuleysið á evrusvæðinu er nú í söglegu hámarki og mældist það tæp tólf prósent í september.

Rúmlega átján og hálf milljón var atvinnulaus í evruríkjunum sautján í septembermánuði samkvæmt nýjum tölum sem Eurostat birti í dag, Atvinnuleysið mældist þannig ellefu komma sex prósent og hækkaði um núll komma eitt prósentustig frá ágústmánuði, sem þýðir að tæplega hundrað og fimmtíu þúsund bættust á atvinnuleysisskrá.

„Ástandið versnar sífellt og engin merki sjáanleg að það batni í þessum þremur löndum. Þvert á móti hef ég miklar áhyggjur af þessu því við verðum þess vör að þetta kemur afar illa niður á ungu fólki," segir Fabian Zuleeg, hagfræðingur.

Mest mælist atvinnuleysið á Spáni, 25,8 prósent en annar hver Spánverji undir 25 ára aldri er nú án atvinnu. Jóakim Galletero er á meðal þeirra fjölmörgu Spánverja sem finnur vel fyrir ástandinu, en hann og kona hans hafa verið atvinnulaus í langan tíma.

„Ástandið er óþolandi því nú skuldum við bökunum fé, við höfum ekki getað greitt veðskuldirnar í tvo mánuði og þeir geta farið fram á útburð að þremur mánuðum liðnum. Við erum því orðin úrkula vonar," segir Joaquin.

Og fjölskyldufaðirinn hefur áhyggjur af framíð sjö ára sonar síns og annarra ungmenna í landinu.

„Við sjáum alls enga framtíð fyrir hann þótt hann leggi hart að sér í námi. Það skiptir ekki máli hvað hann leggur mikið á sig. Hver er framtíð hans? Hann mun verða alslaus hvort sem hann lærir eða ekki. Hann á sér enga framtíð. Hvorki við né hann," segir Joaquin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×