Körfubolti

NBA í nótt: Knicks og San Antonio ósigruð - Allen yfir 23 þúsund stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ray Allen í leik með Miami.
Ray Allen í leik með Miami. Mynd/AP
Átta leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt. New York Knicks vann sinn þriðja sigur í röð og hefur ekki byrjað betur á tímabili í þrettán ár.

Knicks vann góðan sigur á Philadelphia, 110-88, þar sem að Carmelo Anthony skoraði 21 stig og JR Smith sautján.

Mestu munaði um góðan þriðja leikhluta þar sem að Knicks náði 21 stiga forystu í leiknum. Rasheed Wallace, sem er 38 ára, kom þá sterkur inn og skoraði átta stig, þar af tvær þriggja stiga körfur.

Jrue Holiday var stigahæstur hjá Philadelphia með sautján stig en liðið náði sér ekki á strik eftir ágætan fyrsta leikhluta.

San Antonio hefur unnið alla fjóra leiki sína á tímabilinu til þessa sem er félagsmet. Liðið vann Indiana í nótt, 101-79, þar sem Gary Neal skoraði sautján stig fyrir San Antonio.

Mikið munaði um framlag varamanna en þeir skoruðu alls 57 stig fyrir San Antonio en 35 stig fyrir Indiana. Sigur San Antonio var öruggur en skotnýting Indiana var aðeins upp á 35 prósent í leiknum.

Miami hafði betur gegn Phoenix, 124-99, en leikurinn var sögulegur fyrir Ray Allen, leikmann Miami. Hann skoraði fimmtán stig alls og komst yfir 23 þúsund stig alls á ferlinum. Hann varð 24. leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem afrekar það.

LeBron James var með 23 stig og ellefu fráköst en Dwyane Wade kom næstur með 22 stig.

Minnesota vann Brooklyn Nets, 107-96, eftir að hafa verið 22 stigum undir í leiknum. Alexey Shved og Chase Budinger fóru mikinn í fjórða leikhluta en Nets skoraði síðustu ellefu stig leiksins.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - NY Knicks 88-110

Brooklyn - Minnesota 96-107

Miami - Phoenix 124-99

Memphis - Utah 103-94

Dallas - Portland 114-91

San Antonio - Indiana 101-79

Sacramento - Golden state 94-92

LA Clippers - Cleveland 101-108

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×