Körfubolti

NBA: "Fjögurra stiga" karfa hjá Ray Allen í blálokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ray Allen og LeBron James fagna í nótt.
Ray Allen og LeBron James fagna í nótt. Mynd/AP
San Antonio Spurs byrjar NBA-tímabilið vel en liðið vann þriðja sigurinn í röð. Miami Heat getur þakkað fjögurra stiga sókn frá Ray Allen fyrir nauman sigur á Denver Nuggets, Boston Celtics vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu, Brooklyn Nets vann sinn fyrsta heimasigur og sigurganga Houston Rockets endaði með tapi í framlengingu á móti Portland Trail Blazers..

Tony Parker var með 24 stig og 10 stoðsendingar þegar San Antonio Spurs vann 110-100 heimasigur á Utah Jazz. Danny Green skoraði 21 stig og Tim Duncan bætti við 19 stigum og 11 fráköstum hjá San Antonio sem hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu. Mo Williams var stigahæstur hjá Utah með 29 stig.

Ray Allen skoraði þriggja stiga körfu 6,7 sekúndum fyrir leikslok og fékk víti að auki sem hann nýtti þegar Miami Heat vann 119-116 heimasigur á Denver Nuggets. Chris Bosh átti stórleik og skoraði 40 stig, LeBron James endaði leikinn með 20 stig, 11 stoðsendingar og 9 frásköst en Allen skoraði 23 stig. Kenneth Faried og Andre Iguodala voru báðir með 22 stig hjá Denver.

Paul Pierce skoraði 27 stig þegar Boston Celtics vann 89-86 sigur á Washington Wizards og fagnaði fyrsta sigrinum á tímabilinu. Kevin Garnett skoraði 15 stig og Rajon Rondo var með 12 stig og 12 stoðsendingar. Jordan Crawford var stigahæstur hjá Washington með 21 stig.

Brook Lopez skoraði 27 stig og Deron Williams var með 19 stig og 9 stoðsendingar þegar Brooklyn Nets fagnaði komu sinni til Brooklyn með því að vinna 107-100 sigur á Toronto Raptors í fyrsta heimaleiknum í Barclays Center. C.J. Watson var með 15 stig og Joe Johnson skoraði 14 stig. Kyle Lowry var með 28 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar hjá Raptors og DeMar DeRozan skoraði 25 stig.

Nýliðinn Damian Lillard skoraði 8 af 20 stigum sínum í framlengingu þegar Portland Trail Blazers vann 95-85 útisigur á Houston Rockets og stöðvaði sigurgöngu James Harden, Jeremy Lin og félaga í Houston-liðinu. James Harden lét sér nægja að skora 24 stig í nótt eftir 82 stig í fyrstu tveimur leikjunum en Jeremy Lin var með 13 stig og 7 stoðsendingar.

Stephen Curry og Carl Landry skoruðu báðir 23 stig þegar Golden State Warriors vann 114-110 útisigur á Los Angeles Clippers en þetta var fyrsta tap Clippers á tímabilinu. Chris Paul skoraði 27 stig fyrir Clippers en hann setti niður 19 af 20 vítum sínum í leiknum. Jamal Crawfor skoraði einnig 27 stig og Blake Griffin var með 19 stig og 11 fráköst.



Úrslitin úr öllum leikjunum NBA deildarinnar í nótt:

Washington Wizards - Boston Celtics 86-89

Indiana Pacers - Sacramento Kings 106-98 (framlenging)

Brooklyn Nets - Toronto Raptors 107-100

Miami Heat - Denver Nuggets 119-116

Chicago Bulls - New Orleans Hornets 82-89

Houston Rockets - Portland Trail Blazers 85-95 (framlenging)

Milwaukee Bucks - Cleveland Cavaliers 105-102

Dallas Mavericks - Charlotte Bobcats 126-99

San Antonio Spurs - Utah Jazz 110-100

Los Angeles Clippers - Golden State Warriors 110-114

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×