Íslenski boltinn

Hjartaskoðun aðeins hjá liðum í Evrópukeppni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Knattspyrnuheimurinn er enn að jafna sig eftir áfallið sem Muamba fékk.
Knattspyrnuheimurinn er enn að jafna sig eftir áfallið sem Muamba fékk. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það hefur verið mikil umræða um heilsuvernd knattspyrnumanna í kjölfar þess að Fabrice Muamba, leikmaður Bolton, fékk hjartaáfall í leik gegn Tottenham.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist á undanförnum árum. Fréttablaðinu lék forvitni á að vita hvernig eftirliti með ástandi íslenskra knattspyrnumanna væri háttað.

„Almenn læknisskoðun leikmanna er krafa samkvæmt leyfiskerfi KSÍ en leikmenn liða sem taka þátt í Evrópukeppnum þurfa að gangast undir ítarlegri læknisskoðun. Þar á meðal þurfa þeir leikmenn að fara í hjartaómskoðun," sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, en stendur til að gera betur í þessum málum?

„Það er hægt að gera betur í öllum þessum málum og verið að ræða ýmislegt. Það er svo síðan spurning um kostnaðarliðinn sem getur orðið hár." Það hefur einnig verið rætt víða hvort ekki ætti að skylda þjálfara liða í yngri flokkum að fara reglulega á skyndihjálparnámskeið. Ef eitthvað kæmi upp á í leik væri alltaf tryggt að einhver á staðnum kynni að bregðast rétt við.

„Skyndihjálpin er hluti af okkar námsefni að ég held en það er spurning um hversu reglulega þjálfarar ættu að fara á slík námskeið. Það væri mjög æskilegt að þjálfarar myndu sækja slík námskeið reglulega."

Dæmin eru til staðar hér á landi rétt eins og erlendis. Ætlar KSÍ að breyta einhverju í sínu kerfi í þessum málum?

„UEFA og FIFA eru að vinna á þessum vettvangi og við höfum fylgt þeirra reglum vel eftir. Við höfum samt ekki enn gert það að skyldu að leikmenn í efstu deildum fari í hjartaskoðun enda snýst það um talsverðan kostnað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×