Norsk stjórnvöld taka undir mörg sjónarmið Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum, í skriflegum athugasemdum til dómsins.
Frestur EES-ríkja til að skila athugasemdum vegna málareksturs Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) rann út á miðnætti.
Samkvæmt heimildum frétta bárust dómstólnum þrjár aðrar athugasemdir hið minnsta. Frá Bretlandi og Hollandi, sem styðja málatilbúnað ESA eins og gefur að skilja, og Liechtenstein sem er á sama máli og Norðmenn.
Norðmenn kveða skýrt að orði í sínum athugasemdum, sem birtust á vef norsku stjórnarinnar í gær. Þar er tekið undir sjónarmið íslenskra stjórnvalda um að tilskipun ESB um innstæðutryggingar geri ekki ráð fyrir að ríkissjóðir beri ábyrgð á innstæðutryggingasjóði komi til allsherjar kerfishruns. Segir meðal annars að ekki sé hægt að leggja svo íþyngjandi kvaðir á ríki án þess að það sé skýrt tiltekið í tilskipuninni.
Þá klykkja Norðmenn út með þeim tilmælum til dómstólsins að hann hafni hverri þeirri túlkun tilskipunarinnar sem feli í sér ríkisábyrgð á innstæðutryggingum.
Munnlegur málflutningur í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum hefst að öllum líkindum seinni hluta þessa árs.- þj
