Menning

Poppið fyrirferðarmeira en klassíkin í Hörpunni

Tæplega 250 þúsund manns sóttu tónlistarviðburði í Hörpunni fyrsta starfsárið. Steinunn Birna Ragnarsdóttir segir það framar vonum.
Tæplega 250 þúsund manns sóttu tónlistarviðburði í Hörpunni fyrsta starfsárið. Steinunn Birna Ragnarsdóttir segir það framar vonum. fréttablaðið/anton
Fleiri popp- og rokktónleikar hafa verið haldnir í Hörpunni en klassískir síðan húsið var opnað í maí í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hörpunni um þá tónleika sem þar hafa verið haldnir á fyrsta starfsári hennar.

Popp- og rokktónleikar voru flestir, eða 94 talsins, og skammt á eftir þeim komu 87 klassískir tónleikar. Tónleikar með léttri tónlist af ýmsu tagi voru 78, tónleikar með nútímatónlist voru 42, söngleikir voru 28, óperur 19, barnatónleikar 18, djasstónleikar voru 16 og nemendatónleikar 12.

Aðspurð segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpunnar, að þessi skipting sýni fjölbreytnina í húsinu í hnotskurn. „Þetta kveður endanlega niður allar grunsemdir um að hér halli á einhverja ákveðna tegund tónlistar. Það stóð alltaf til að hafa þessa fjölbreytni þó að það væru einhverjir sem bjuggust við að hér yrði kannski öðruvísi verkefnaval. Þessar áherslur okkar hafa gengið eftir og það er mjög gleðilegt," segir Steinunn Birna.

Samanlagt sóttu 249.381 manns alls 394 tónlistarviðburði í Hörpunni á fyrsta starfsári hennar. „Þetta er talsvert umfram það sem lagt var af stað með í allri áætlanagerð og spám. Við renndum svo sem blint í sjóinn enda var þetta í fyrsta skipti sem svona hús reis á landinu," segir Steinunn Birna. „Við erum alltaf að finna betur og betur hvað það var uppsöfnuð þörf fyrir húsið. Við vissum að því yrði tekið fagnandi af tónlistarmönnum en það sem er svo gleðilegt er að almenningur og gestir hafa tekið húsinu svo vel, sem sýnir sig í þessum aðsóknartölum."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×