„Þessi fjöldi kemur mér mjög skemmtilega á óvart," segir Hildur Sverrisdóttir.
Tæplega eitt hundrað kynferðislegar fantasíur höfðu verið sendar inn á vefsíðuna Fantasiur.is í síðustu viku í tengslum við væntanlega bók Hildar. Frestur til að skila inn fantasíum rennur út 19. júní. Þá ætlar Hildur að taka þær saman og nota í bók sína um fantasíur íslenskra kvenna sem er væntanleg síðsumars eða í haust, eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá.
Til að fá betri yfirsýn yfir verkefnið ákvað Hildur að hætta að skoða fantasíurnar sem komu inn á síðuna í síðustu viku og ætlar ekki að líta aftur á þær fyrr en að umsóknarfrestinum loknum. „Það sem ég var búin að skoða áður en ég hætti sýnir að þetta er fjölbreytt og greinilega skrifað af konum á öllum aldri og þarna eru íslenskri staðarhættir," segir hún en ein fantasían gerist í víkingaskála. „Það eru bara sverð og skildir sem er mjög hressandi. Ég held það gerist ekki mikið íslenskara en það."
Bæði stuttar fantasíur og lengri, sem nánast eru eins og fullbúnar smásögur, hafa verið sendar inn á síðuna. „Þær eru margar hverjar stutt atvikalýsing allt upp í vel útfærðar sögur með inngangi og öllum þessum smáatriðum sem konur eru svo hrifnar af." -fb
