Innlent

Rassskellingar á að afnema með öllu

Þorlákur Helgason
Þorlákur Helgason
Ég veit að börn hafa hætt í íþróttum vegna rassskellinganna," segir Þorlákur Helgason, framkvæmdastjóri Olweusar-áætlunarinnar gegn einelti. „Þetta er alveg eins og hvert annað ofbeldi þar sem krakkar eru að reyna að komast inn í hópana. Þetta á að afnema með öllu og það á ekki að fara neina millileið."

Nýliðavígslur í landslið Íslendinga í hinum ýmsu íþróttagreinum hafa tíðkast lengi. Í íslenska karlalandsliðinu í handknattleik hefur mikið borið á rassskellingum nýliða undir því yfirskyni að þannig séu þeir boðnir velkomnir. Þorlákur segir brýnt að landsliðin sýni gott fordæmi.

„Þarna eru fyrirmyndirnar og krakkarnir apa þetta eftir. Það á ekki að vera gantast eitthvað með svona," segir Þorlákur. „Nýliðar í íslenska landsliðinu tala um það undir rós að þeir séu fegnir því að Sigfús Sigurðsson sé ekki lengur þar því þá yrðu þeir barðir enn þá fastar."

„Ég veit að þetta tíðkast í yngri flokkum. Svona niðurlæging á sér stað og foreldrar hafa hringt í mig og sagt mér af því," segir Þorlákur. „Þetta er bara niðurlægjandi, þetta er ofbeldi og þetta er útilokun sem á ekki að eiga sér stað í íþróttum."

„Það er regla með alla krakka að þeir reyna að telja foreldrum sínum trú um að þetta sé leiðin til að verða ekki útundan."

Þorlákur segir að taka eigi á móti nýliðum í íþróttahópum með virðingu en ekki niðurlægingu. Hann kallar ennfremur eftir því að íþróttasamböndin setji siðareglur um nýliðavígslurnar.

„Það verður samt sem áður að hrósa þeim íþróttafélögum sem hafa afnumið ofbeldið," segir Þorlákur að lokum.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×