Ólympísk vitleysa Ólafur Þ. Stephensen skrifar 19. júlí 2012 06:00 Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að horfur væru á að verðfall yrði á afla strandveiðimanna eftir mánaðamótin. Strandveiðibátunum er heimilt að halda til veiða 1. ágúst, en þremur dögum síðar kemur verzlunarmannahelgi og þá eru flestar fiskvinnslur lokaðar. Ef enginn mætir á fiskmarkað til að bjóða í aflann verður honum annaðhvort hent eða minni vinnslur kaupa hann á mjög lágu verði. Þetta er ein afleiðing þeirrar vitlausu ákvörðunar sem Jón Bjarnason tók þegar hann var ráðherra. Með því að taka nokkur þúsund tonn af botnfiski og láta smábáta keppa um aflann var búið til nýtt gat í kerfi skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar í stað þeirra sem stoppað hafði verið upp í til að koma böndum á stjórnlausa veiði smábáta um árabil. Strandveiðimenn hafa rætt sín á milli að bindast samtökum um að seinka því að róa. Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, sagði hér í blaðinu að hann vissi þó ekki til að slíkt samkomulag væri að nást. Auðvitað ekki. Það væri ekki bindandi fyrir nokkurn mann og freistingin of mikil á meðal þeirra 760, sem hafa fengið strandveiðileyfi í sumar, að róa og krækja í stærri skerf af heildaraflanum en hinir – áður en komið er upp í leyfilegt hámark og veiðarnar verða stöðvaðar þegar fáeinir dagar eru liðnir af mánuðinum, eins og reyndin hefur verið undanfarin sumur. Reynslan af strandveiðunum, sem hófust 2009, er að flestu leyti vond. Nefnd hagfræðinga, sem Jón Bjarnason fékk í fyrrasumar til að rýna fyrsta kvótafrumvarpið (samkvæmt því átti að auka strandveiðar), benti á að það væri yfirhöfuð furðulegt að þeim hefði verið komið á. Um væri að ræða svokallaðar ólympískar veiðar, þar sem heildarafli er takmarkaður en afli hvers báts ræðst fyrst og fremst af sókn. Ólympískar eru þær kallaðar vegna kappsins, sem menn leggja við að veiða sem mest á sem stytztum tíma. Það kemur niður á gæðum aflans, sem eru mun lakari en hjá bátum í kvótakerfinu, lækkar verðið á fiskinum og hækkar kostnað við sóknina. Í sömu skýrslu voru rifjuð upp markmið ráðherrans með strandveiðunum, en þau voru meðal annars að stuðla að vistvænni veiðum, auka nýliðun í sjávarútvegi, efla atvinnu og hleypa nýju lífi í sjávarbyggðir. Niðurstaða hagfræðinganna var hins vegar sú að veiðifyrirkomulagið hvetti til brottkasts, bátarnir væru mikið til að veiða smærri fisk nálægt landi og fáeinir róðrardagar yfir sumarið byggju ekki til raunverulega atvinnu fyrir neinn. Um nýliðunina vísuðu þeir til athugana Háskólaseturs Vestfjarða, sem bentu til að yfirgnæfandi meirihluti strandveiðimanna hefði áður stundað útgerð. „Því virðist fremur sem strandveiðarnar hafi virkjað þann hluta smábátasjómanna og smábátaflotans sem höfðu horfið úr útgerð í hagræðingu undangenginna tveggja áratuga. Miðað við áherslur stjórnvalda á að sú hagræðing fengi að eiga sér stað skýtur skökku við að ráðast í breytingar á fiskveiðistjórnun sem leyfa henni að ganga til baka," sagði í skýrslunni. Strandveiðarnar hafa líklega gert sjávarbyggðirnar líflegri og búið til fleiri myndatökutækifæri fyrir ferðamenn – fyrstu daga hvers sumarmánaðar. En þær hafa ekki stuðlað að raunverulegri atvinnusköpun og því síður hagkvæmri nýtingu á dýrmætri auðlind. Það er miklu nær að vinda ofan af þessari vitleysu en að bæta í. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að horfur væru á að verðfall yrði á afla strandveiðimanna eftir mánaðamótin. Strandveiðibátunum er heimilt að halda til veiða 1. ágúst, en þremur dögum síðar kemur verzlunarmannahelgi og þá eru flestar fiskvinnslur lokaðar. Ef enginn mætir á fiskmarkað til að bjóða í aflann verður honum annaðhvort hent eða minni vinnslur kaupa hann á mjög lágu verði. Þetta er ein afleiðing þeirrar vitlausu ákvörðunar sem Jón Bjarnason tók þegar hann var ráðherra. Með því að taka nokkur þúsund tonn af botnfiski og láta smábáta keppa um aflann var búið til nýtt gat í kerfi skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar í stað þeirra sem stoppað hafði verið upp í til að koma böndum á stjórnlausa veiði smábáta um árabil. Strandveiðimenn hafa rætt sín á milli að bindast samtökum um að seinka því að róa. Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, sagði hér í blaðinu að hann vissi þó ekki til að slíkt samkomulag væri að nást. Auðvitað ekki. Það væri ekki bindandi fyrir nokkurn mann og freistingin of mikil á meðal þeirra 760, sem hafa fengið strandveiðileyfi í sumar, að róa og krækja í stærri skerf af heildaraflanum en hinir – áður en komið er upp í leyfilegt hámark og veiðarnar verða stöðvaðar þegar fáeinir dagar eru liðnir af mánuðinum, eins og reyndin hefur verið undanfarin sumur. Reynslan af strandveiðunum, sem hófust 2009, er að flestu leyti vond. Nefnd hagfræðinga, sem Jón Bjarnason fékk í fyrrasumar til að rýna fyrsta kvótafrumvarpið (samkvæmt því átti að auka strandveiðar), benti á að það væri yfirhöfuð furðulegt að þeim hefði verið komið á. Um væri að ræða svokallaðar ólympískar veiðar, þar sem heildarafli er takmarkaður en afli hvers báts ræðst fyrst og fremst af sókn. Ólympískar eru þær kallaðar vegna kappsins, sem menn leggja við að veiða sem mest á sem stytztum tíma. Það kemur niður á gæðum aflans, sem eru mun lakari en hjá bátum í kvótakerfinu, lækkar verðið á fiskinum og hækkar kostnað við sóknina. Í sömu skýrslu voru rifjuð upp markmið ráðherrans með strandveiðunum, en þau voru meðal annars að stuðla að vistvænni veiðum, auka nýliðun í sjávarútvegi, efla atvinnu og hleypa nýju lífi í sjávarbyggðir. Niðurstaða hagfræðinganna var hins vegar sú að veiðifyrirkomulagið hvetti til brottkasts, bátarnir væru mikið til að veiða smærri fisk nálægt landi og fáeinir róðrardagar yfir sumarið byggju ekki til raunverulega atvinnu fyrir neinn. Um nýliðunina vísuðu þeir til athugana Háskólaseturs Vestfjarða, sem bentu til að yfirgnæfandi meirihluti strandveiðimanna hefði áður stundað útgerð. „Því virðist fremur sem strandveiðarnar hafi virkjað þann hluta smábátasjómanna og smábátaflotans sem höfðu horfið úr útgerð í hagræðingu undangenginna tveggja áratuga. Miðað við áherslur stjórnvalda á að sú hagræðing fengi að eiga sér stað skýtur skökku við að ráðast í breytingar á fiskveiðistjórnun sem leyfa henni að ganga til baka," sagði í skýrslunni. Strandveiðarnar hafa líklega gert sjávarbyggðirnar líflegri og búið til fleiri myndatökutækifæri fyrir ferðamenn – fyrstu daga hvers sumarmánaðar. En þær hafa ekki stuðlað að raunverulegri atvinnusköpun og því síður hagkvæmri nýtingu á dýrmætri auðlind. Það er miklu nær að vinda ofan af þessari vitleysu en að bæta í.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun