Búið er að frysta um 11.500 tonn af afurðum í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði frá því í sumarbyrjun. Uppistaðan, eða 8.700 tonn, er makríll. Nú í vikunni brá svo við í fyrsta skipti að gera varð hlé á vinnslunni vegna hráefnisskorts, en fyrstu haustbrælunum er um að kenna, segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur vertíðin gengið vel í alla staði. Vart er hægt að tala um frátafir frá veiðum, enda veðurblíða einstök. Allur aflinn á vertíðinni hefur verið unninn til manneldis á Vopnafirði og aðeins afskurður og fiskur, sem flokkast hefur frá í vinnslunni, hefur farið til bræðslu í fiskmjölsverksmiðjunni á staðnum.
Að sögn Vilhjálms hefur sala afurða gengið vel í sumar og afskipanir hafa verið tíðar; oft hefur afurðum verið skipað út frá Vopnafirði einu til tvisvar sinnum í viku.
Fjölda fólks þarf til að halda vinnslunni gangandi og hefur verið unnið eftir sérstöku frídagakerfi, sem hefur mælst vel fyrir að sögn stjórnenda. - shá
