Körfubolti

NBA í nótt: Boston sýndi sitt rétta andlit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garnett treður yfir Carmelo Anthony í leiknum í nótt.
Garnett treður yfir Carmelo Anthony í leiknum í nótt. Mynd/AP
Boston Celtics minnti á sig með góðum sigri á New York Knicks í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 102-96.

New York hefur verið eitt besta lið deildarinnar í vetur og er liðið í öðru sæti Austurdeildarinnar, rétt á eftir meisturum Miami Heat.

Boston hefur hins vegar átt misjöfnu gengi að fagna í vetur en hefur þó verið að rétta úr kútnum að undanförnu. Þetta var þriðji sigur liðsins í röð í nótt en þrátt fyrir það er Boston í áttunda sæti Austurdeildarinnar.

Paul Pierce skoraði 23 stig fyrir Boston í nótt og Kevin Garnett var með nítján stig og tíu fráköst. Liðið var án Rajon Rondo sem tók út leikbann.

Carmelo Anthony var með 20 stig fyrir New York en nýtti aðeins sex af 26 skotum sínum í leiknum, auk þess að lenda í villuvandræðum. JR Smith var stigahæstur með 24 stig.

Botnlið Austurdeildarinnar, Washington, vann afar óvæntan sigur á Oklahoma City, 101-99. Bradley Beal tryggði Washington sigurinn með körfu þegar 0,3 sekúndur voru eftir af leiknum.

Washington hafði tapað þrettán af síðustu fjórtán leikjum sínum fyrir þennan en liðið en þess má þó geta að fyrr í vetur vann liðið einnig óvæntan sigur á Miami Heat.

Beal og Martell Webster voru með 22 stig fyrir Washington í nótt og Kevin Durant 29 stig fyrir Oklahoma City.

Portland vann Orlando, 125-119, í framlengdum leik þar sem LaMarcus Aldridge var með 27 stig og tíu fráköst. Þetta var níunda tap Orlando í röð.

Úrslit næturinnar:

Washington - Oklahoma City 101-99

NY Knicks - Boston 96-102

Chicago - Cleveland 118-92

New Orleans - San Antonio 95-88

Utah - Dallas 100-94

Sacramento - Memphis 81-113

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×