Körfubolti

Kupchak: Leikmönnum Lakers að kenna en ekki þjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Mitch Kupchak, framkvæmdastjóri Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta, kennir leikmönnum um slæmt gengi liðsins og telur ástæðuna ekki liggja á þjálfaranum sem hann valdi yfir Phil Jackson. Lakers hefur aðeins unnið 2 af 11 leikjum sínum í janúar.

Mike D'Antoni tók óvænt við Lakers í nóvember en þá bjuggust allir við að Phil Jackson, sigursælasti þjálfari NBA-deildarinnar, væri að fara að taka aftur við liðinu. Jackson var til í slaginn en Mitch Kupchak fór aðra leið.

„Það er enginn vafi á því að við höfum fulla trú á Mike (D'Antoni) þjálfara," sagði Mitch Kupchak í viðtali við ESPN.

Tímabilið er hálfnað og Los Angeles Lakers hefur aðeins unnið 17 af 41 leik og er langt frá sæti úrslitakeppninni eins og staðan er í dag. Slakt gengi að undanförnu (9 töp í síðustu 11 leikjum) eru ekki að auka líkurnar á því að liðið nái hreinlega inn í úrslitakeppnina. Liðið var með 50 prósent sigurhlutfall þegar nýtt ár rann í garð og endurheimti þá Steve Nash úr meiðslum.

„Við erum búnir að grafa okkur holu og það er pirrandi staða fyrir alla. Það er að sjálfsögðu ekki eitthvað sem einhver bjóst við. Ég hef áhyggjur af viðleitni leikmanna liðsins. Ég vil sjá leikmenn leggja sig meira fram inn á vellinum," sagði Mitch Kupchak og benti á það að Lebron James hefði skutlað sér á eftir bolta í leik Miami og Lakers á dögunum.

„Þegar skotin klikka og hlutirnir eru ekki að ganga upp inn á vellinum þá er það eina sem þú getur stjórnað er hversu mikið þú leggur þig fram. Barátta um lausa bolta, hlaup upp völlinn, varnarleikur og sóknarfráköst. Leikmenn verða að taka sig á í þessum þáttum leiksins," sagði Kupchak.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×