Golf

Tiger sendi einkaflugvélina eftir Lindsey Vonn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods.
Tiger Woods. Mynd/Nordic Photos/Getty
Heitasta sportparið í Bandaríkjunum í dag er örugglega kylfingurinn Tiger Woods og skíðakonan Lindsey Vonn. Bandarískir og evrópskir slúðurmiðlar hafa verið að skrifa um samband þeirra að undanförnu og enn meira eftir að Woods gerði Vonn mikinn greiða um helgina.

Lindsey Vonn meiddist illa á hné í síðustu viku í Heimsmeistarakeppninni í alpagreinum og verður ekkert meira með á þessu ári. Keppnin fór fram í Austurríki en Vonn er nú komin heim til Bandaríkjanna þökk sé rausnarlegu framtaki Woods.

Tiger Woods sendi nefnilega einkaflugvélina eftir vinkonu sinni Lindsey Vonn. Fulltrúar þeirra beggja aðila hafa ekki viljað tjá sig um sambandið og tala aðeins um þau sem góða vini. Það er þó ljóst að þau Tiger og Lindsey hafa eytt meiri og meiri tíma saman að undanförnu.

Flugferð Vonn í boði Woods er síðan eins og olía á eldinn í umfjöllun fjölmiðla um meint samband en Lindsey Vonn gekk einmitt frá skilnaði sínum í janúar. Það var mikill fjölmiðlamatur þegar Tiger Woods og Elin Nordegren skildu og upp komst um mikið framhjáhald kylfingsins.

Tiger Woods er 37 ára en Lindsey Vonn er 28 ára. Þau eru bæði í hópi þeirra allra bestu í sínum íþróttagreinum í sögunni og hafa unnið stærstu mótin í sínu sporti mörgum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×