Viðskipti erlent

Meðallaun í norska olíuiðnaðinum 1,7 milljónir á mánuði

Meðallaun í norska olíuiðnaðinum samsvara því að hver starfsmaður þar sé með 1,7 milljónir króna á mánuði eða yfir 20 milljónir króna í laun á ári.

Þetta eru þó ekki hæstu árslaun sem bjóðast í olíuiðnaðinum í þeim löndum sem vinna olíu. Ástralir eru nokkuð á undan Norðmönnum þegar kemur að launum í þessum iðnaði. Þar eru árslaunin nokkuð yfir 21 milljón króna.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðunni offshore en hún byggir á nýrri úttekt hjá vinnumiðluninni Hays Oil and Gas sem sérhæfir sig í ráðningu á fólki til olíuiðnaðarins hvort sem það eru verkamenn á olíuborpöllum, skrifstofufólk eða forstjórar einstakra fyrirtækja.

Úttekt vinnumiðlunarinnar náði til 25.000 starfsmanna í olíuiðnaðinum um allan heim.

Offshore ræðir við Matt Underhill forstjóra Hays Oil and Gas um launaþróunina í norska olíuiðnaðinum. Hann segir að miklar fjárfestingar á undanförnum árum í þessum iðnaði hafi skýlt Norðmönnum að miklu leyti fyrir áhrifum fjármálakreppunnar. Á móti hafi þetta valdið skorti á vinnuafli sem ýtt hafi undir launahækkanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×