Golf

Tiger með tveggja högga forystu fyrir helgina

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tiger Woods og Rory McIlroy í sólskinsskapi í Flórída.
Tiger Woods og Rory McIlroy í sólskinsskapi í Flórída. Mynd:NordicPhotos/Getty
Tiger Woods lék annan hringinn á WGC-Cadillac Meistaramótinu á 65 höggum og náði tveggja högga forystu á Norður-Írann Graeme McDowell en leikið er á TPC Bláa Skrímslinu í Flórída.

Woods lék annan hringinn á sjö undir pari eftir að hafa leikið þann fyrri á sex undir og er því samanlagt á 13 höggum undir pari.

McDowell lék annan hringinn á 67 höggum og er tveimur höggum á eftir Tiger Woods eftir tvo hringi. Þar einu höggi á eftir eru Phil Mickelson og Steve Stricker.

Tiger lék þrjár fyrstu holurnar á pari en fékk fjóra fugla á sex næstu holum. Alls fékk Tiger átta fugla á hringnum og einn skolla.

Tiger Woods þarf að halda uppteknum hætti nú um helgina því McDowell fékk engan skolla á tveimur fyrstu hringjunum.

Tiger Woods er í öðru sæti heimslistans í golfi, á eftir Rory McIlroy. Norður-Írinn var í ráshóp með Tiger tvo fyrstu dagana en náði sér ekki á strik og er ellefu höggum á eftir Tiger Woods á tveimur undir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×