Viðskipti erlent

Notaði 2.000 milljarða til að veikja gengi dönsku krónunnar

Á tímabilinu frá miðju ári 2011 og fram að miðju ári 2012 notaði danski seðlabankinn (Nationalbanken) 91 milljarð danskra kr. eða tæplega 2.000 milljarða kr. til þess að veikja gengi dönsku krónunnar.

Fjallað er um málið í ársfjórðungsyfirliti Nationalbanken sem gefið var út í dag samhliða útgáfu ritsins Fjármálastöðugleiki 2013 hjá bankanum. Þar segir að á fyrrgreindu tímabili hafi skuldakreppan á evrusvæðinu náð hámarki með tilheyrandi fjármagnsflótta frá svæðinu. Danska krónan hefði á þessum tíma verið talin „örugg höfn“  fyrir fjárfesta svipað og svissneski frankinn eða bandaríkjadollarinn.

Danska krónan er bundin við gengi evrunnar með mjög ströngum vikmörkum, þ.e. mismunur á gengi þessara gjaldmiðla má aldrei fara yfir 2,25%. Í raun hefur gengið nær aldrei sveiflast meira en 0,1% þar til evrukreppan náði hámarki.

Þegar fjárfestar fóru að fjárfesta í dönsku krónunni í miklum mæli frá miðju ári 2011 styrktist gengi hennar samsvarandi. Nationalbanken varð að bregðast við þessu með því að kaupa gjaldeyri fyrir danskar krónur til að veikja gengi krónunnar svo það héldist innan framangreindra vikmarka. Á móti jókst gjaldeyrisforði Dana að sama marki, það er um 91 milljarð danskra kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×