Innlent

Boðið að hætta við þátttöku á matarsöluplani og fá endurgreitt

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá Menningarnótt í fyrra.
Frá Menningarnótt í fyrra. mynd/daníel
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur boðið þeim sem greitt hafa fyrir pláss á matarsöluplani á Geirsgötu á Menningarnótt að fá endurgreiðslu, vilji þeir hætta við þátttöku.

Í bréfi sem Björn Ingvarsson hjá umhverfis- og skipulagssviði kvittar undir er endurgreiðslunni lofað „á meira en hefðbundnum kerfishraða“, en boðið kemur til vegna kvörtunar sem borginni barst frá Regnbogabörnum vegna Hinsegin daga. Þar var gjaldið sagt of hátt og ekki í nokkru samræmi við útlagðan kostnað borgarinnar við aðstöðuna.

Að sögn Björns hefur þó enginn nýtt sér boðið, heldur þvert á móti hafi tveir bæst við þá fjóra sem höfðu þegar greitt gjaldið. Aðspurður hvort eitthvað sé til í ásökunum um að gjaldtaka borgarinnar sé langt yfir kostnaði segir Björn að málið sé í skoðun.

„Í raun á bara eftir að taka saman allan kostnað. Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir öllu sem þarna er á bak við. Það þarf að loka umferð um planið, útvega rafmagn, þrífa og ýmislegt annað,“ segir Björn, en gjald fyrir matarsölupláss er það sama á Menningarnótt og það var á Hinsegin dögum: 100 þúsund krónur fyrir pláss frá 9:30 að morgni til 4 um nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×