Íslenski boltinn

Erum að toppa á réttum tíma

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Þetta leggst bara mjög vel í okkur en liðið hefur verið að spila mjög vel saman í sumar og sérstaklega í síðustu leikjum,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Blikar mæta Þór/KA í sínum fimmtánda bikarúrslitaleik í sögu félagsins. Leikurinn hefst klukkan fjögur á Laugardalsvellinum.

„Vonandi náum við síðan fram okkar besta leik í sumar núna á laugardaginn. Það eru rosalega margar stelpur í okkar liði sem hafa aldrei spilað á Laugardalsvellinum og þetta er því mjög spennandi fyrir okkur. Það eru algjör forréttindi að fá að spila þennan leik og vonandi náum við að vinna þennan bikar.“

Greta Mjöll er eini leikmaður liðsins sem hefur áður spilað til úrslita með Breiðabliki í bikarnum.

„Við erum í raun ekkert með meiri reynslu en Þór/KA af svona leikjum. Það er samt sem áður ákveðin sigurhefð í félaginu sem gæti hjálpað okkur töluvert.“

Stjarnan er svo gott sem búin að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu en liðið er með fullt hús stiga í efsta sæti deildarinnar, ellefu stigum á undan næsta liði sem er Breiðablik. Það má því segja að þetta sé síðasta tækifærið fyrir lið að krækja í titil í dag. Liðin eiga því eflaust eftir að berjast til síðasta blóðdropa.

„Þetta er auðvitað stórt tækifæri til að ná í titil og það þarf eitthvað mikið að gerast hjá Stjörnunni svo þær glutri frá sér Íslandsmeistaratitlinum. Okkar draumur er að sjálfsögðu að vinna á Laugardalsvellinum því það er kannski okkar eini séns á titli í sumar.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×